Nýr deildarforseti viðskipta- og raunvísindadeildar HA

Dr. Hans Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn í stöðu deildarforseta viðskipta- og raunvísindadeildar. Hann mun hefja störf 15. nóvember nk. Hans Kristján er með doktorsgráðu í eðlisverkfræði og gegndi áður stöðu forstöðumanns Rannís, Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Hann hlaut doktorsgráðu frá Tækniháskólanum í Stokkhólmi árið 1982 og hefur komið víða við á ferli sínum.  

Hans Kristján lagði lengi stund á kennslu við Verkfræði og raunvísindadeild HÍ, gegndi stjórnunarstöðum hjá Iðntæknistofunum og var starfsmaður og deildarstjóri hjá EFTA á sviði vísindamála. Á árunum 1995-1999 starfaði Hans sem fulltrúi Menntamálaráðuneytis á sviði vísinda, menntamála og menningar við Sendiráð Íslands í Brussel. Þá var hann rektor NorFA, norrænnar stofnunar um vísindamenntun á árunum 1999-2003 en þá settist hann í stól forstöðumanns Rannís.

Einnig hefur Hans Kristján verið virkur í margs konar félagastarfi og átt sæti í fjölmörgum nefndum, einkum á sviði vísinda. Hann er kvæntur Sólveigu Hulsdunk Georgsdóttur, mannfræðingi, á einn son og tvö barnabörn.

Nýjast