Forsvarsmenn Sjúkrahússins á Akureyri og yfirmenn myndgreiningardeildar sjúkrahússins færa framangreindum aðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra tók mælinn formlega í notkun fyrr í dag. Beinþéttnimælingar hófust árið 1997 á FSA þegar keyptur var 5 ára gamall beinþéttnimælir frá Landspítala. Til dagsins í dag hafa verið framkvæmdar um 6.500 beinþéttnimælingar en jafnframt er gefin ítarleg sérfræðiráðgjöf um beinvernd í tengslum við hverja mælingu.
Beinþéttnimælirinn sem nú er tekinn í notkun styttir m.a. rannsóknatíma hverrar beinþéttnimælingar um helming og þannig verða afköst meiri og rannsóknin enn auðveldari fyrir þann sem gengst undir hana. Öll úrvinnsla fer nú fram með stafrænum hætti, sem gefur möguleika á að sækja eftir sérfræðiþekkingu um beinþynningu út fyrir FSA. Úrlestur gagna fer fram í Reykjavík og er jafnan lokið samdægurs með ítarlegri sérfræðingsráðgjöf.
Mælir beinmassa, fitu og vöðvamassa
Eldri mælir var í bráðabirgðahúsnæði en nýja mælinum hefur verið komið fyrir í vel innréttuðu framtíðarhúsnæði á myndgreiningardeild FSA. Beinþéttnimælir af þeirri gerð sem nú er tekinn í notkun mælir m.a. beinmassa í hrygg og mjöðm, en gefur einnig kost á beinþéttnimælingum í öllum beinum líkamans ef þörf þykir. Mælirinn getur einnig framkvæmt magnmælingu á fitu og vöðvamassa, sem hjálpar við eftirlit á ýmsum sjúkdómum, s.s. átröskun. Að auki er hægt að leggja nákvæmt stafrænt mat á stærð og fjölda samfallsbrota í hryggjarliðabolum.
Beinþéttnimæling kostar í dag 2.000 krónur fyrir almenning en lægra gjald er fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja. Konur eldri en fertugar og karlar eldri en 55 ára geta pantað rannsókn í forvarnaskyni án tilvísunar frá lækni.
Á FSA skal hafa samband við móttöku myndgreiningardeildar í síma 463 0251. Myndgreiningardeild áréttar þó að til að tryggja bestu sérfræðiráðgjöfina er æskilegt að beinþéttnimælingar séu gerðar í samvinnu við heilsugæslu og sérgreinalækna. Beinþéttnimælingar eru í boði á um 2ja vikna fresti alla vetrarmánuði ársins. Ýmsar gagnlegar upplýsingar má finna á heimasíðu Beinverndar (http://www.beinvernd.is/).