Á samgönguþingi voru kynnt drög að stefnumótun 12 ára samgönguáætlunar áranna 2011 til 2022 en undirbúningur hennar á vegum samgönguráðs hefur staðið allt frá árinu 2008. Í samgönguráði sitja forstöðumenn samgöngustofnana auk formanns sem ráðherra skipar. Gert er ráð fyrir að samgönguáætlunin verði lögð fyrir Alþingi á komandi haustþingi.
Víðtækt samráð
Samkvæmt lögum um samgönguáætlun er gert ráð fyrir ákveðnu samráði fjölmargra aðila við gerð samgönguáætlunar. Slíkt samráð hefur verið umfangsmeira en áður. Þannig voru haldnir fundir í öllum landsfjórðungum um langtímastefnumótun. Fundina sóttu fulltrúar sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélaga og atvinnulífs. Þá var boðið uppá umræðufundi með háskólasamfélaginu og stofnað var til samstarfsvettvangs um samgöngumál þar sem leiddir voru saman sérfræðingar, stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar með það að markmiði að miðla þekkingu og stuðla að rannsóknarstarfi. Lokahnykkurinn í samráði er samgönguþing.
Stefna í fimm köflum
Stefna og markmið samgönguáætlunar eru sett fram í fimm köflum:
Greiðar samgöngur
Meginbreytingin varðandi greiðar samgöngur felst í því að markmið um hámark ferðatíma milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins er fellt út en áhersla þess í stað lögð á styttingu ferðatíma innan hvers landsvæðis, þ.e. markmið um hámark ferðatíma til næsta atvinnu- og þjónustukjarna. Aukin áhersla er á greiðari samgöngur með öðrum ferðamáta en einkabíl, þ.e. að efla almenningssamgöngur og áhersla er á að hjólandi og gangandi verði auðveldað að komast leiðar sinnar. Komu þessar áherslubreytingar meðal annars fram á samráðs- og hugarflugsfundum.
Umhverfislega sjálfbærar samgöngur
Stefnumið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur eru ítarlegri en áður. Lögð er meiri áhersla á umhverfisvænni ferðamáta en einkabíl, breyttar ferðavenjur og aukna notkun umhverfisvænna orkugjafa í samgöngutækjum.
Hagkvæmar samgöngur
Aukin áhersla er lögð á mat á samfélagslegum kostnaði og ávinningi við samgönguframkvæmdir, að gjaldtaka af notendum endurspegli raunverulegan kostnað og breytta ferðahætti í þéttbýli til að draga úr þörf á uppbyggingu umferðarmannvirkja. Fram kom á samráðsfundum stuðningur við faglega forgangsröðun fjárfestinga í samgöngum þar sem samfélagsleg áhrif yrðu metin og vegin samhliða ávinningi af til dæmis styttri ferðatíma og auknu umferðaröryggi.
Öryggi í samgöngum
Í öryggismálum er stefnan svipuð og verið hefur en bætt er við stefnumiði um að greina áhrif þess að taka formlega upp svokallaða núllsýn í umferðaröryggismálum hérlendis og bera hana saman við aðrar leiðir sem þær þjóðir fara sem fremst standa í umferðaröryggismálum.
Jákvæð byggðaþróun
Vísað er í markmið sóknaráætlunar og áhersla lögð á samþættingu samgönguáætlunar við aðrar áætlanir stjórnvalda, svo sem byggðaáætlun, fjarskiptaáætlun, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og orkuskiptaáætlun í samgöngum, segir í fréttatilkynningu.