Hundruð einstaklinga slasast árlega í umferðarslysum á Íslandi og sum þeirra hafa alvarlegar eða jafnvel banvænar afleiðingar. Með það að leiðarljósi hefur Akureyrarbær nú samþykkt nýja umferðaröryggisáætlun sem nær til næstu fimm ára og miðar að því að draga úr slysum og bæta öryggi allra vegfarenda í bænum. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Í skýrslunni, sem EFLA vann fyrir Akureyrarbæ, er farið yfir stöðu samgöngumála og umferðaröryggis, orsakir slysa greindar og sett fram framkvæmdaáætlun með markvissum aðgerðum. Sérstök áhersla er lögð á öryggi viðkvæmra vegfarendahópa, svo sem gangandi og hjólandi og barna á leið í og úr skóla.
Samráð við íbúa og hagsmunaaðila var lykilhluti í mótun áætlunarinnar. Haldnir voru fundir með fulltrúum frá Vegagerðinni, Samgöngustofu, lögreglu, foreldrafélögum, eldri borgurum og fleiri aðilum, og fjöldi ábendinga barst frá íbúum.
Markmið áætlunarinnar eru m.a. að fækka slysum, bæta aðgengi og auka lífsgæði bæjarbúa. Áætlunin styður jafnframt við landsmarkmið stjórnvalda um umferðaröryggi, þar sem m.a. er stefnt að því að dregið verði úr alvarlegum slysum um 5% árlega til ársins 2038.
Umferðaröryggisáætlunin var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrarbæjar 9. júlí 2025.
Hér er hægt að lesa skýrsluna.