Fimm hópar standa fyrir sýningunni Fenris sem fram fer í Hofi á Akureyri í kvöld, fimmtudag. Um er að ræða samvinnuverkefni ungs áhugafólks og fagfólks í sviðslistum frá sex Norðurlöndum en fólkið er á aldrinum 14-20 ára. Þetta eru leikhópar frá Færeyjum, Noregi, Danmörku og Íslandi og svo danshópur frá Finnlandi, segir Gréta Kristín Ómarsdóttir, sem stýrir leiklistarhópnum frá Íslandi sem nefnist Leikhópurinn Saga.
Við erum búinn að vinna að þessu verkefni síðan í desember en þetta eru um 80 ungmenni í heildina, þar af tólf frá Leikhópnum Sögu. Við hittumst fyrst um áramótin í Finnlandi og svo um páskana í Danmörku. Við erum að leggja lokahönd á þetta núna og það eru allir orðnir mjög spenntir, segir Gréta en sýningin í kvöld hefst kl. 19:00.
Þemað er einstaklingshyggja, tilraunir til samvinnu í heimi samkeppninnar og tilvera unglinga í dag. Í sýningunni er söngur, tónlist, dans, stultur og sviðsmynd samansett úr litlum kössum.