Erlingur Thoroddsen starfrækti Hótel Norðurljós á Raufarhöfn um árabil af miklum myndarskap. Hann féll frá fyrir skömmu og nú hefur eigandi hótelsins, sveitarfélagið Norðurþing, auglýst rekstur Hótels Norðurljósa til leigu frá 1. febrúar 2016 til 31. október sama ár.
Hið leigða er hótelhlutinn að Aðalbraut 2, 15 herbergi, matsalur og íbúð, nafn hótelsins og rekstrarbúnaður samkvæmt lista. Hótelið var í fullum rekstri fram í nóvember 2015.
Óskað er eftir tilboðum í leigu á ofangreindu tímabili en skila þarf lýsingu á áformum rekstraraðila með þjónustu og gæðaviðmið sem haft verður í huga við rekstur hótelsins. Gert er ráð fyrir að leigutaki greiði allan almennan kostnað af rekstrinum, svo sem rafmagn, viðhald búnaðar og minniháttar viðhald húsnæðis í samræmi við húsaleigulög. Ekki er gert ráð fyrir neinum meirháttar breytingum á húsnæðinu á leigutímanum. Eignin verður síðan auglýst til sölu á leigutímanum.
Húsnæðið verður til sýnis n.k. mánudag 25. janúar 2016 frá kl. 10 til 14. Samkvæmt heimildum Dagskrárinnar hafa þegar nokkrar fyrirspurnir borist leigjendum. JS