Norðursigling á Húsavík hefur verið tilnefnd til stærstu umhverfis- og viðskiptaverðlauna Evrópu, GreenTec Awards, í flokki ferðamála. „Þetta er mikill heiður fyrir okkur og viðurkenning á þeirri umhverfisvænu vegferð sem við höfum markað okkur,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar.
Norðursigling er fyrsta hvalaskoðunarfyrirtækið í heiminum sem býður upp á hvalaskoðunarsiglingar án þess að jarðefnaeldsneyti sé notað en fyrirtækið hefur, í samstarfi við fleiri aðila, þróað einstakan og umhverfisvænan rafbúnað sem knýr skonnortuna Opal. „Þetta er svolítið eins og að vera tilnefndur til Óskarsverðlauna og að sama skapi vekur þetta athygli á Íslandi sem umhverfisvænum áfangastað.“ Segir Guðbjartur.
Netkosning er nú hafin um hver þeirra tíu aðila, sem tilnefndir eru í hverjum flokki, lendir í einu af efstu þremur sætunum en dómnefnd velur síðar sigurvegarann úr þeim hópi. Verðlaunin eru veitt í sextán flokkum og er Norðursigling tilnefnd í flokknum „Ferðalög“ (e.Travel).
„Við biðlum því til Íslendinga um að leggja okkur lið með því að taka þátt í netkosningunni,“ segir Guðbjartur Ellert. Netkosningin fer fram á vefslóðinni www.greentec-awards.com og er öllum frjálst að taka þátt. JS