Hagnaður Norðurorku á árinu 2015 var 1.590 milljónir króna eftir skatta og eigið fé tæplega 8,1 milljarðar króna. Frá þessu var greint á aðalfundi félagsins í dag en þar var ákveðið að greiða 35% arð til hluthafa eða um 296 milljónir króna. Ársvelta samstæðunnar var tæplega 3,3 milljarðar króna á síðasta ári og eiginfjárhlutfall er 61,9%.
„Norðurorka greiddi niður lán á liðnu ári um 382 milljónir króna. Stærstur hluti niðurgreiðslunnar er vegna lána í evrum. Veltufé frá rekstri var tæplega 1,4 milljarður króna og handbært fé í árslok tæplega 2,2 milljarðar króna. Langtímaskuldir í árslok voru tæplega 4,2 milljarðar króna og lækkuðu um 232 milljónir króna milli ára. Fjárfesting Norðurorku í endurbótum á kerfum og nýframkvæmdum var um 814 milljónir króna sem er ívið minna en áætlað var þar sem nokkrum verkefnum var frestað, en á móti komu einnig ný verkefni utan áætlunar,“ segir ennfremur.
Fjárfestingar árið 2016 eru áætlaðar 854 milljónir króna segir í tilkynningunni. Þar af vegna hitaveitu 226 milljónir, fráveitu 365 milljónir, vatnsveitu 97 milljónir, rafveitu 99 milljónir og til annarra rekstrarþátta 67 milljónir króna. „Mörg stór verkefni eru á áætlun næstu árin, einkum í fráveitu og hitaveitu. Í undirbúningi er bygging hreinsistöðvar fráveitu við Sandgerðisbót sem áætlað er að verði lokið árið 2018. Unnið er að aukinni orkuöflun í hitaveitu með borun nýrrar holu á svæðinu við Botn og Hrafnagil en auk þess farið að huga að aukinni flutningsgetu frá vinnslusvæðinu á Arnarnesi við Hjalteyri með því að leggja þaðan viðbótar aðveitu til Akureyrar. Loks ber að nefna framkvæmdir dótturfélagsins Fallorku við byggingu Glerárvirkjunar II.“
Kosið var í nýja stjórn Norðurorku og skipa hana: Edward Hákon Huijbens, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Njáll Trausti Friðbertsson. Varastjórn: Eva Hrund Einarsdóttir, Jóhann Jónsson, Óskar Ingi Sigurðsson, Margrét Kristín Helgadóttir og Matthías Rögnvaldsson.