Norðurorka greiðir hluthöfum 35 % í arð

Hagnaður Norður­orku á ár­inu 2015 var 1.590 millj­ón­ir króna eft­ir skatta og eigið fé tæp­lega 8,1 millj­arðar króna. Frá þessu var greint á aðal­fundi fé­lags­ins í dag en þar var ákveðið að greiða 35% arð til hlut­hafa eða um 296 millj­ón­ir króna. Ársvelta sam­stæðunn­ar var tæp­lega 3,3 millj­arðar króna á síðasta ári og eig­in­fjár­hlut­fall er 61,9%.

„Norður­orka greiddi niður lán á liðnu ári um 382 millj­ón­ir króna. Stærst­ur hluti niður­greiðslunn­ar er vegna lána í evr­um. Veltu­fé frá rekstri var tæp­lega 1,4 millj­arður króna og hand­bært fé í árs­lok tæp­lega 2,2 millj­arðar króna. Lang­tíma­skuld­ir í árs­lok voru tæp­lega 4,2 millj­arðar króna og lækkuðu um 232 millj­ón­ir króna milli ára. Fjár­fest­ing Norður­orku í end­ur­bót­um á kerf­um og ný­fram­kvæmd­um var um 814 millj­ón­ir króna sem er ívið minna en áætlað var þar sem nokkr­um verk­efn­um var frestað, en á móti komu einnig ný verk­efni utan áætl­un­ar,“ seg­ir enn­frem­ur.

Fjár­fest­ing­ar árið 2016 eru áætlaðar 854 millj­ón­ir króna seg­ir í til­kynn­ing­unni. Þar af vegna hita­veitu 226 millj­ón­ir, frá­veitu 365 millj­ón­ir, vatns­veitu 97 millj­ón­ir, raf­veitu 99 millj­ón­ir og til annarra rekstr­arþátta 67 millj­ón­ir króna. „Mörg stór verk­efni eru á áætl­un næstu árin, einkum í frá­veitu og hita­veitu. Í und­ir­bún­ingi er bygg­ing hreins­istöðvar frá­veitu við Sand­gerðis­bót sem áætlað er að verði lokið árið 2018. Unnið er að auk­inni orku­öfl­un í hita­veitu með bor­un nýrr­ar holu á svæðinu við Botn og Hrafnagil en auk þess farið að huga að auk­inni flutn­ings­getu frá vinnslu­svæðinu á Arn­ar­nesi við Hjalteyri með því að leggja þaðan viðbót­ar aðveitu til Ak­ur­eyr­ar. Loks ber að nefna fram­kvæmd­ir dótt­ur­fé­lags­ins Fall­orku við bygg­ingu Gler­ár­virkj­un­ar II.“

Kosið var í nýja stjórn Norður­orku og skipa hana: Edw­ard Há­kon Huij­bens, Friðbjörg Jó­hanna Sig­ur­jóns­dótt­ir, Geir Krist­inn Aðal­steins­son, Ingi­björg Ólöf Isak­sen og Njáll Trausti Friðberts­son. Vara­stjórn: Eva Hrund Ein­ars­dótt­ir, Jó­hann Jóns­son, Óskar Ingi Sig­urðsson, Mar­grét Krist­ín Helga­dótt­ir og Matth­ías Rögn­valds­son.

Nýjast