"Tilgangurinn með þessair samkeppni er að fá fólk til að setjast niður og skrifa um bæinn okkar, hvort heldur sem það eru minningar eða framtíðarsýn," sagði Gísli Sigurgeirsson, formaður menningarfélagsins Norðra. Norðri hefur efnt til ljóða- og sagnasamkeppni, sem er öllum opin. Þema verkanna skal vera; "Bærinn minn", minningar eða væntingar byggðar á fortíð eða framtíð Akureyrarbæjar. Ljóðin mega ekki vera lengri en 1.000 innsláttarslög, en sögurnar mega fara upp í 10 þúsund slög. Dómnefnd, skipuð bókmennta- og íslenskufræðingum, hefur verið skipuð. Hún velur fimm bestu verkin í hvorum flokki og fá höfundar þeirra
myndarlegar viðurkenningar.
Þátttakendur senda efnið undir dulnefni og í fjórriti á Norða, Eyarlandsvegi 3, 600 Akureyri. Rétt nafn höfundar skal fylgja með í lokuðu umslagi merktu dulnefninu. Þetta þarf að gerast fyrir 1. júlí nk. Við erum fyrst og fremst að höfða til almennings, viljum með þessu fá fólk til að setjast niður og skrifa stutt ljóð eða stuta sögu, líkt og þegar við gerðum stíl í skólanum í gamla daga. Þetta efni gæti síðan orðið eins og vísir að sagnabanka um Akureyri. Sögurnar sem dómnefndin telur bestar verða settar á netið og jafnverl prentaðar í bók", sagði Gísli ennfremur.