Samstarf Björgunarsveitarinnar Núpa og Öxarfjarðarskóla hefur staðið yfir í tæp átta ár eða frá haustinu 2008.
Í gegnum árin hafa nemendur unglingadeildar gengið á ýmis fjöll og heiðar. Gengið hefur verið á fjöllin Sandfell, Tungufjall, Þverárhyrnu, og Valþjófstaðafjall. Einnig hefur verið gengið um heiðar m.a. Hólaheiði og gist í gangnamannaskála. Gengið frá Ásbyrgi upp í Vesturdal og sigið í helli við Kerlingarhól í Kelduhverfi
Unglingadeildin gekk á Þverárhyrnu mánudaginn 22. febrúar, ásamt Kristjáni Inga, kennara og félaga í björgunarsveitinni, og kennurunum Ann-Charlotte og Christoph Wöll. Efsti tindur Þverárhyrnu er í rúmlega 540 metra hæð.
Farið var úr Lundi á Hilux björgunarsveitarinnar og tveimur einkabílum. Ekið var upp í Sandfellshaga þar sem björgunarsveitarbíllinn var notaður til að selflytja mannskapinn áleiðis að fjallinu. Það varð strax ljóst að gangan yrði erfið, því göngufæri var erfitt. Drjúgur tími fór í að fikra sig upp meðfram hlíðinni norður og austur fyrir fjallið að hrygg sem liggur norður frá tindinum. Rétt áður en komið var á hrygginn fékk hópurinn forsmekkinn að framhaldinu, harðfennisbrekku sem þurfti að þvera og var ekki auðvelt að fóta sig í henna, en allir komust heilu og höldnu yfir.
Á hryggnum hressti hópurinn sig á nesti. Því næst var farið í broddana og græjaðar línur fyrir þrjá hópa, 4 saman í einum og 5 saman í tveimur. Þá var lagt í ísaða brekkuna upp að tindinum. Neðan við tindinn er smá stallur og þar beið hópurinn meðan sett var upp lína upp klettana á tindinn. Þeir sem treystu sér ekki upp klettana (sem var mikill minnihluti) biðu fyrir neðan en hinir fikruðu sig einn í einu í línutryggingu upp. Á toppnum voru teknar hefðbundnar hópmyndir áður en hverjum og einum var slakað niður í línunni. GSK/js