Nemendur Lundarskóla í heimsókn á Sigurhæðum

"Það var einstök upplifun, að hlusta á ríflega 40 krakka úr 2. bekk Lundarskóla syngja þjóðsönginn okkar, Ó, Guð vors lands, í Sigurhæðum Matthíasar í gærmorgun. Þau sungu svo fallega og voru skóla sínum til mikils sóma", sagði Gísli Sigurgeirsson, húsbóndi á Sigurhæðum, í samtali við Vikudag.  

Krakkarnir heimtóttu Sigurhæðir, þar sem þau hafa verið að læra sitthvað um Matthías Jochumsson í skólanum að undanförnu. Meðal annars lærðu þau þjóðsönginn; ljóð Matthíasar við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar. Það hefur vafist fyrir mörgum, að syngja þjóðsönginn, en krakkarnir úr Lundarskóla gerðu það með stolti og virðingu.

Það hefur verið mikill gestagangur á Sigurhæðum að undanförnu og þannig á það að vera, að sögn Gísla. Yfir 200 manns heimsóttu safnið á Eyfirska safnadeginum, en þá var opnuð sýning í safninu tengd konum í lífi skáldsins. Konur lögðu líka sitt að mörkum í dagskránni. Beate Stormo kemdi ull og spann, Arna Valdóttir, Inga Eydal, Elvý G. Hreinsdóttir og Sigrún Arngrímsdóttir sungu ljúflingslög og konur úr kvæðamannafélaginu Gefjunni kváðu stemmur.

Það fór heldur enginn svangur frá Sigurhæðum, því Guðlaug Ringsted var í eldhúsinu með súkkulaði, kleinur, vöfflur og annað góðgæti. Unga fólkinu var einnig boðið upp á margvíslega skyr og mjólkurdrykki frá MS.

Nýjast