Nefnd skoði möguleika á að flytja höfuðstöðvar Northern Forum til Akureyrar

Nú fyrir stundu lauk fundum á Allsherjarþingi samtakanna Northern Forum þar sem Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, lagði fram boð þess efnis að flytja höfuðstöðvar Northern Forum til Akureyrar. Samþykkt var að skoða málið til hlítar og var stofnuð nefnd til að fara yfir kosti og galla þess að hafa skrifstofu samtakanna á Akureyri. Nefndin á að skila greinargerð um málið á næsta ári. Ákveðið var að næsti tengiliða- og verkefnastjórafundur samtakanna verði haldinn á Akureyri vorið 2008. Kosin var ný framkvæmdastjórn Northern Forum en Alexander V. Filipenko frá Khanty-Mansiysk í Rússlandi mun halda áfram sem formaður. Einnig voru kosnir varaformenn fyrir hvern heimshluta og var Sigrún Björk Jakobsdóttir kosin fulltrúi Norður-Evrópu og tekur við af fulltrúa Lapplands, Hannele Pokka, sem verið hefur í stjórn frá upphafi. Allsherjarþing samtakanna Northern Forum var haldið í Khanty-Mansiysk í Rússlandi í þessari viku. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Stefásdóttir deildarstjóri, fulltrúar Akureyrar í samtökunum, sátu þingið. Á þinginu lagði bæjarstjóri fram boð þess efnis að flytja höfuðstöðvar samtakanna til Akureyrar. Höfuðstöðvarnar eru nú í Alaska og var Pricilla Wohl endurkjörin sem framkvæmdastjóri þeirra til tveggja ára.

Nýjast