Ferðaskrifstofan Nazar flýgur fjórum sinnum í haust frá Akureyrarflugvelli til Tyrklands og mun geta flutt allt að 720 farþega frá Akureyri beint í sólina. Flogið verður til Antalya og hægt er að panta annað hvort pakkaferð eða bara flug. Í fréttatilkynningur segir að Ferðaskrifstofan Nazar starfi á Norðurlöndunum en sé í eigu Tui Travel, einnar stærstu ferðaskrifstofu í heimi.
Það er flugfélagið SunExpress sem flýgur fyrir Nazar á Boeing 737-800 vélum. SunExpress er í eigu Lufthansa og stundar eingöngu leiguflug.
Hjördís Þórhallsdóttir er umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi. Fulltrúar frá Isavia og markaðsstofu Norðurlands hittu forsvarsmenn Nazar í fyrra og þar kviknaði hugmyndin að leiguflugi frá Akureyri. Eftir það gengu hlutirnir hratt fyrir sig og fyrsta flugið verður 30. september næstkomandi. Það er mjög ánægjulegt að Nazar sjái tækifærin í beinu flugi frá Akureyrarflugvelli og út í heim. Við erum með fullbúinn alþjóðaflugvöll hér á Akureyri og getum tekið við mun meira millilandaflugi og aukið þjónustuna bæði við íbúa Norðurlands og ekki síður við þá fjölmörgu ferðamenn sem sækja okkur heim á hverju ári.