Naumur sigur Akureyrar gegn HK í kvöld

Akureyri Handboltafélag vann í kvöld nauman sigur á HK, 27:26, er liðin mættust í Höllinni í N1- deild karla í handbolta. Staðan í hálfleik var jöfn 16:16. Akureyri náði fjögurra marka forystu, 26:22, þegar langt var liðið á seinni hálfleikinn. HK- menn voru þó ekki á því að gefast upp og minnkuðu muninn niður eitt mark þegar skammt var leiksloka en lengra komust gestirnir hins vegar ekki og norðanmenn fögnuðu sínum fjórða sigri í deildinni í röð eftir æsispennandi lokasekúndur. 

Oddur Gretarsson var markahæstur í liði Akureyrar í kvöld með 6 mörk, Árni Þór Sigtryggsson og Jónatan Þór Magnússon skoruðu 5 mörk hver, Andri Snær Stefánsson 4 mörk og aðrir minna. Hörður Flóki Ólafsson átti góðan leik í marki Akureyrar og varði 18 skot.

Markahæstir í liði HK í kvöld voru þeir Valdimar Fannar Þórsson með 8 mörk, Ólafur Víðir Ólafsson með 6 mörk og Atli Ævar Ingólfsson með 5 mörk. Þá varði Sveinbjörn Pétursson 16 skot í marki gestanna.

Eftir leikinn er Akureyri komið með 9 stig í deildinni eftir sjö leiki en HK hefur fimm stig en hefur leikið einum leik minna.

 

Nánar um leikinn í Vikudegi á morgun.

Nýjast