Bæjarráð Akureyrar lýsti yfir áhyggjum af ástandi heilsugæslugæslu þjónustu HSN á Akureyri á síðasta bæjarráðsfundi og krefst þess að ríkisvaldið setji aukið fjármagn til starfseminnar til að bæta aðstöðu og fjölga læknum. Langir biðtímar eftir þjónustu heilsugæslulækna að undanförnu er að miklu leyti vegna manneklu að mati Jóns Helga Björnssonar forstjóra HSN, þ.e. læknar stöðvarinnar eru of fáir.
Segir Jón að starfsaðstaða hafi einnig áhrif á hvernig gangi að manna stöður. Nýtt húsnæði fyrir heilsugæslustöð, eða -stöðvar, á Akureyri sé því mikilvægt skref í að bæta þjónustuna að mati forsvarsmanna HSN. Jón Helgi lýsti einnig áhyggjum af fjármögnun starfseminnar á fundi bæjarráðs, þegar horft er til framkomins fjárlagafrumvarps vegna 2019.
Vantar allt að sex heimilislækna
Við fyrirspurn blaðsins segir Jón Helgi að 9 heimilislæknar séu starfandi á Akureyri í dag en samkvæmt eðlilegu viðmiði ættu þeir að vera 15 á stöðinni. Meðalbiðtími eftir lækni er 21 dagur en getur verið lengri eða styttri hjá einstaka lækni. Hins vegar er miklum fjölda erinda sinnt samdægurs á opinni móttöku síðdegis og um helgar. Með flutningi þeirrar þjónustu frá SAk til heilsugæslunnar í Hafnarstræti hafa afköst þjónustunnar verið aukin að sögn Jóns Helga. Hann segist jafnframt vonast eftir því að það minnki eitthvað eftirspurn eftir tímum hjá föstum læknum.
Jón Helgi Björnsson
Vantar 100-150 milljónir
Spurður um hversu mikið fjármagn þurfi að koma frá ríkinu til að koma málaflokknum í betra horf, segir Jón Helgi að erfitt sé að fullyrða um nákvæmar tölur. „En líklegt er að það vanti 100-150 milljónir. Þá er mikilvægast til framtíðar að flytja úr núverandi húsnæði heilsugæslunnar til að laða fólk til starfa. Núverandi húsnæði hentar ekki þessari starfsemi og fara þarf í tvær nýjar stöðvar með góðu aðgengi sem byggja þarf á Akureyri sem fyrst,“ segir Jón Helgi.
Í skýrslu um framtíðarhúsnæði heilsugæslunnar á Akureyri sem kynnt var á ársfundi HSN í fyrra kom fram að byggja þurfi nýtt húsnæði fyrir hana á tveimur stöðum þannig að bæjarbúar geti geti sótt alla þjónustu í sitt nærumhverfi. Núverandi húsnæði heilsugæslunnar á Akureyrar er verulega ábótvant samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar. Varðandi flutning heilsugæslunnar segir Jón Helgi að málið sé enn í skoðun.
„Það silast áfram í kerfinu en það er ekki hægt segja neitt til um hvenær flutningur gæti mögulega átt sér stað. En við leggjum áherslu á að
það verði sem fyrst þar sem það skiptir öllu máli að komast í nýtt húsnæði,“ segir Jón Helgi