Nauðsynlegt að bæta aðstöðuna í Hlíðarfjalli

Íþróttabandalag Akureyrar efndi til fundar um íþróttamál í gærkvöld í Brekkuskóla. Fulltrúar frá fjórum íþróttafélögum fluttu stutt erindi um rekstur og framtíðarhorfur félaganna og fulltrúar allra framboða til komandi bæjarstjórnarkosninga kynntu áherslur sínar í íþróttamálum.  

Fram kom í máli fulltrúa Samfylkingar og Framsóknarflokks að nauðsynlegt væri að bæta aðstöðu fyrir skíðafólk í Hlíðarfjalli, en svæðið er eitt vinsælasta íþróttasvæði bæjarins. Í því sambandi var talað um skíðahótelið, bílastæði og skíðalyftur og að ráðast þyrfti í framkvæmdir sem fyrst. Í máli fulltrúa L-listans kom fram athyglisverð hugmynd um að setja upp sérstaka íþróttadeild við Háskólann á Akureyri til þess að auka veg íþrótta í bænum. Þá voru fulltrúar flestra framboða sammála um það að hækka þyrfti styrki til foreldra barna sem stunda íþróttir í bænum.

Nýjast