Myndrænn samleikur um völundarhús

Rósa Kristín Júlíusdóttir og Karl Guðmundsson sýna í Mjólkurbúðinni.
Rósa Kristín Júlíusdóttir og Karl Guðmundsson sýna í Mjólkurbúðinni.

Karl Guðmundsson (Kalli) og Rósa Kristín Júlíusdóttir opna sýninguna Myndrænn samleikur um völundarhús, í Mjólkurbúðinni á Akureyri, laugardaginn 2. júní kl.14.00. Karl og Rósa Kristín hafa unnið saman að myndlist í mörg ár. Leiðir þeirra lágu saman þegar Karl, þá fimm ára, var nemandi Rósu Kristínar í Myndlistaskólanum á Akureyri. Í dag vinna þau saman sem félagar og vinir í listinni. Þau hafa haldið sameiginlegar listsýningar mörg undanfarin ár þar sem myndverk þeirra eru afrakstur myndræns samspils eða samleiks.  Einnig hafa þau haldið fyrirlestra um samvinnu sína í tengslum við sýningar og á ráðstefnum um menntamál. 

“Í upphafi áttu manneskjur samskipti með snertingu og táknum, síðan komu orð. Kalli og ég höfum að því leyti horfið til baka því tjáskipti okkar byggja mikið á táknum og snertingu, en ef til vill eru augun okkar sterkasti samskiptamiðill. Auðvitað notum við líka orð, Kalli finnur orðin sem hann vill segja á bliss spjaldinu sínu þegar ég skil ekki hin málin. List Kalla fæðist í huga hans en verður að veruleika í tjáskiptum okkar með ýmis konar táknum, tungumáli augnanna og því að hann fær lánaða höndina mína. Samvinna okkar Kalla hefur staðið um árabil, alveg síðan að hann var agnarsmár strákur. Á þeim tíma hefur sjálfstæði Kalla í listsköpun vaxið og dafnað jafnt og þétt og samstarf okkar sem lengi vel var samspil nemanda og kennara hefur þróast markvisst yfir í samvinnu tveggja vina og félaga í listinni. Nú um stundir er svo komið að ég er trúlega að læra meira af Kalla en hann af mér! Kalli er óhræddur við að gera tilraunir, fást við nýja hluti, hann þorir. Ég hef þörf fyrir að vera örugg með það sem ég geri. Sýningin sem við opnum í dag er orðin til fyrir áhrif þessara eiginleika Kalla; að prófa eitthvað nýtt,” segir Rósa Kristín um samvinnu sína og Karls í listum.

Í verkinu Myndrænn samleikur um völundarhús, er fram haldið þeim listrænu athöfnum sem Karl og Rósa Kristín hafa unnið með undanfarin ár. Þau leika sér með línur og liti en bjóða jafnframt gestum að stíga inn í verkið. Sýningin stendur til 17. júní og er opin laugardaga og sunnudaga kl.14-17 og eftir samkomulagi. Allir velkomnir.

 

 

Nýjast