Myndlistarsýning: Fjallið Kerling séð frá Fujian héraði

Laugardaginn 5. júlí kl 18.00 opnar myndlistarmaðurinn Aðalsteinn Þórsson sýningu á nýjum verkum í Dyngjunni - listhúsi í Eyjafjarðarsveit.

Hinn japanski Hokusai gerði einhverja mikilvægustu grafík seríu listasögunnar á fjórða áratug nítjándu aldar með seríunni Þrjátíu og sex sýnir á fjallið Fuji.

Á sýningu sinni í Dyngjunni sýnir Aðalsteinn þrjár blek og vatnslita myndir af fjallinu Kerlingu séða frá Fuijan héraði í Kína. Þessar myndir vann Aðalsteinn eftir minni á meðan vinnustofudvöl hans og Örnu Guðnýjar Valsdóttur í borginni Xiamen í Fujian héraði í Kína stóð, frá miðjum janúar fram í miðjan maí nýliðinn. Myndirnar vann hann með hefðbundnum kínverskum aðferðum eftir því sem honum var unnt sem listamaður þjálfaður eftir vestrænni myndlistar hefð. Kínversk landslagshefð er ólík þeirri vestrænu og snýst ekki um að koma frá sér sem raunverulegastri mynd af landslaginu, heldur tjáningu þess á pappírinn. Myndin er upplifun listamannsins á landslaginu, það sama gildir um þessar myndir Aðalsteins af Kerlingu. Auk þessarar litlu seríu verða aðrar myndir frá dvölinni í Kína sýndar, málaðar með sömu aðferð.

Fjallið Kerling, sem fram hornið á gnæfir fyrir yfir vestan Dyngjunnar, er vanmetið fjall í fjalla metingi íslendinga. Hún er 1542. metra há yfir sjávarmáli og er eina fjallið yfir 1500 metrum á landinu sem rís beint af láglendi. Kerling er tignarleg en hennar er gætt af myndarlegum nágrönnum og þannig heldur hún tign sinni leyndri nema frá vissum sjónarhornum og þá er sjón að sjá. Aðalsteinn horfði á Kerlingu heiman frá sér í æsku en sá aðeins hluta hennar, því séð út um eldhúsgluggann í Kristnesi þar sem hann er borinn og barnfæddur, bar Bóndann hærra við himinn þótt hann sé tæpum tvöhundruð metrum lægri.

Það má benda fólki á að gera myndaleit á veraldarvefnum að Kerlingu, þessu næst hæsta fjalli norðurlands. Herðubreið er ögn hærri þar sem hún rís á hásléttunni. Niðurstöður leitarinnar koma á óvart svo daprar eru þær. Það er kominn tími til að haddur Drottningar eyfirskra fjalla rísi og Kerlingin fái þann sess sem henni ber.

Aðalsteinn Þórsson

Aðalsteinn Þórsson er fæddur árið 1964 í Eyjafirði.  Hann útskrifaðist frá Myndlistardeild Myndlistarskólans á Akureyri árið 1993 og lauk MFA-gráðu í óháðri myndlist frá hollenska listaháskólanum, ArtEz, þá AKI2 í Enchede, Hollandi árið 1998.

Síðan þá hefur Aðalsteinn verið starfandi listamaður. Hans athafnasvæði var áfram í Hollandi árin eftir nám en hann flutti aftur til Íslands árið 2016 og hefur verið búsettur hér síðan. Aðalsteinn hefur verið virkur í sýningahaldi, haldið einkasýningar tekið þátt í samsýningum og viðburðum, auk þess að vera sýningarstjóri. Hann hefur einnig verið virkur í félagsmálum og menningargeiranum. Helsta verkefni hans er þó Einkasafnið, umhverfisverk sem hann rekur í gróðurvini í Eyjafirði, 10 km sunnan við Akureyri.

Myndirnar eru allar unnar með bleki og vatnslitum á xuan pappír. Verkin eru til sölu.

Sýningin verður opin á opnunartímum Dyngjunnar, það er enginn aðgangseyrir og hún er öllum opin. Opnun: 5. júlí frá 18 - 20. Sýningarstjóri er Guðrún Hadda Bjarnadóttir.

Verkefnið var framkvæmt með stuðningi frá: Mugg, samstarfsverkefnis SÍM, Myndstefs og Reykjavíkurborgar og Eyjafjarðarsveit.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Aðalsteins https://steini.art.

Nýjast