Í Friðbjarnarhúsi í Innbænum á Akureyri sýnir Guðbjörg Ringsted leikföng, sem flest eru frá síðustu öld. Þar má sjá fjölda brúða, bíla, spila, bóka og annarra gersema. Gestir safnsins geta þess vegna auðveldlega rifjað upp bernskuna, enda kalla leikföngin gjarnan fram minningar hins liðna. Gestir safnsins eru mun fleiri yfir sumartímann, þannig að segja má að vertíðin sé að hefjast hjá Guðbjörgu um þessar mundir.
Upphafið má rekja til Finnlands, þar fékk ég hugljómun árið 1992. Ég var á vinabæjarmóti og liður í heimsókninni var að skoða leikfangasafn í litlu fallegu timburhúsi. Ég heillaðist mjög af safninu og ákvað þarna úti að setja upp mína eigin sýningu heima á Akureyri. Fljótlega auglýsti ég eftir leikföngum í Morgunblaðinu, en viðbrögðin voru frekar dræm. Þó barst mér fljótlega kassi af leikföngum, auk þess sem vinkonur mínar létu mig hafa leikföng sem þær máttu missa. Nokkrum árum síðar fékk ég töluvert eftir að hafa sýnt leikföng á Minjasafninu hérna á Akureyri, þannig að þetta hefur smátt og smátt undið upp á sig.
Mússa
Mússa var tuskudúkka með plastandlit og er fyrsta dúkkan sem ég man eftir. Hún var reyndar dúkkan okkar Ingu systur. Hún var mikil uppáhaldsdúkka og var að lokum orðin svo þvæld að mamma varð að sauma hana upp á nýtt að miklum hluta. Mig minnir að hún hafi myglað inni í dótaskáp, því það komst raki í skápinn sem var í eldhúsinu næst vaskinum. Þar með voru dagar hennar taldir. Ég vildi svo sannarlega eiga hana Mússu mína í dag, en svona er þetta.
Ítarlegar er talað við Guðbjörgu Ringsted í prentútgáfu Vikudags