Mun fleiri karlar leita eftir aðstoð kirkjunnar en áður

Sumir fá aðstoð frá Hjálparstofnun kirkjunnar oftar en einu sinni í mánuði. Mun fleiri karlar sækja eftir aðstoð en áður og meðal þeirra hefur verið stór hópur erlendra karlmanna. Aukningin er mikil milli ára og mjög breytt samsetning hópsins m.a. fólk í vinnu með lágar tekjur og miklar skuldir, námsfólk og yngri einstaklingar.  

Þetta er á meðal þess sem fram kom hjá Vilborgu Oddsdóttur hjá Hjálparstofnun kirkjunnar á fundi Almannaheillanefndar Akureyrar nýlega. Öryrkjar eru um 47% þeirra sem njóta aðstoðar en hópur atvinnulausra fer stækkandi. 90-95% umsækjenda eru aðeins með grunnmenntun. Allmikil aukning er líka á fólki sem á engan atvinnuleysisbótarétt af einhverjum ástæðum. Almennt séð er mikill greiðsluvilji fólks sem leitar sér aðstoðar hjá kirkjunni. Á Eyjafjarðarsvæðinu er hærra hlutfall fjölskyldufólks sem nýtur aðstoðar og atvinnuleysi er minni ástæða umsókna - frekar skuldastaða og þá sérstaklega á Akureyri. Einnig kom að ekki hefur náðst samstarf milli mæðrastyrksnefndar á Akureyri og Hjálparstofnunar kirkjunnar líkt og á öðrum stöðum á landinu.

Ennfremur kemur fram í bókun Almannaheillanefndar að hjá kirkjunum sé nóg að gera og vinnubrögðin markvissari í viðræðum við fólk með hvatningum og fleiru. Til stendur að breyta vinnulagi við úthlutanir úr Ljósberasjóði Akureyrarkirkju og úthluta inneignarkortum í stað peninga. Aukning hefur verið á þjónustu geðdeildar FSA og varpaði forstöðulæknir fram hugmynd um ráðgjöf sálfræðinga deildarinnar til fyrirtækja á Akureyri í viðbrögðum við ástandinu. Í VMA ber meira á vanlíðan nemenda og færri hafa sótt um nám á vorönn en í fyrra. All nokkur fækkun hefur orðið í fjarnámi og stefnt að enn meiri minnkun þar á næsta ári. Reynt er eftir fremsta megni að verja störfin en yfirvinna minnkar. Hjá Rauða Krossinum fer jólafatasöfnun vel af stað og alltaf eykst ásóknin eftir aðstoð.

Nýjast