Afkoma ársins mun að verulegu leyti ráðast af því hver þróun í starfseminni verður svo og áhrifum gengis og verðlags. Þegar horft er til endurnýjunar og viðhalds á húsnæði er ljóst að mörg og brýn verkefni eru fyrirliggjandi. Þar má m.a. nefna aðstöðu fæðingardeildar, sem þörf er á að bæta og þyrfti að hefja þær framkvæmdir á árinu. Húsnæðismál ýmissa annarra deilda eru óleyst. Ennfremur er ljóst að legudeildarrými fullnægir hvergi kröfum nútímans. Byggja þarf sem fyrst nýja legudeildarálmu til að tryggja þjónustu við sjúklinga og góða aðstöðu starfsfólks. Ljóst er að starfsemi FSA stendur og fellur með því góða fólki sem þar vinnur og því verður að kappkosta að starfsumhverfi starfsfólks og aðstaða sjúklinga verði eins og best verður á kosið. Sú vá sem nú er fyrir dyrum vegna fjárskorts má ekki verða til þess að þjónusta við sjúklinga í ákveðnum sérgreinum falli niður eða skerðist þannig að ekki fáist rönd við reist. Það mikla uppbyggingarstarf sem átt hefur sér stað hér á undanförnum árum skiptir okkur öll miklu máli. Vert er að hafa í huga að heilbrigðisþjónusta er hornsteinn byggðar, segir í ársskýrslu FSA.