Mjólkurbílstjóri slapp ómeiddur er bíll hans fór á hliðina

Betur fór en á horfðist þegar mjólkurbíll frá MS Akureyri fór út af veginum og valt á hliðina neðan við bæinn Vaglir í Eyjafjarðarsveit eftir hádegi í dag. Bílstjórinn sem var einn á ferð, slapp ómeiddur en hann var í öryggisbelti. Litlu mátti þó muna að bíllinn hafnaði ofan á hitaveitulögninni sem liggur frá Laugalandi til Akureyrar.  

Í bílnum voru um 11.500 lítrar af mjólk og tókst að dæla um 11.000 lítrum yfir í annan bíl, þannig að ekki fóru nema um 500 lítrar til spillis. Afleggjarinn upp að bænum er nokkuð brattur en mjólkurbíllinn var á niðurleið þegar óhappið varð. Aðstæður voru erfiðar, lítið skyggni og mikil hálka. Fyrir stundu var unnið að því að koma mjólkurbílnum aftur á hjólin en ekki er talið að hann hafi skemmst mikið.

Nýjast