Húni II EA 740
Ákveðið hefur verið að endurtaka minningarsiglingu um horfna og látinna sjómanna í tengslum við hátíðarhöld á Sjómannadaginn um aðra helgi. Bryddað var upp á þessari fallegu nýjung á Sjómannadaginn í fyrra og var mjög góður rómur gerður að.
Sigfús Ólafur Helgason sem leiðir undirbúning fyrir Sjómannadaginn á Akureyri greinir frá þessu á Facebook í dag og lesa má hér fyrir neðan.
„Það vaxa ekki blóm á leiðum þeirra sjómanna er hvíla í votri gröf“
Þessi setning hnaut af vörum Þorsteins vinar míns Péturssonar þegar við vorum að ræða fyrirhuguð hátíðarhöld komandi sjómannadags.
Það var einmitt hugmynd um að fara í minningarsiglingu á Húna og bjóða öllum þeim sem vilja og sérstaklega þeim sem vilja minnast látinna ástvina, sjómanna sem komu ekki aftur heim úr veiðiferðinni, heldur hvíla í votri gröf.
Í áranna rás og sérstaklega hér fyrrum, gerðist það að menn týndu lífi þegar þeir féllu útbyrðis, nú eða þegar skipsskaðar urðu, menn fórust og engin lík fundust, menn voru bara taldir af og hvíla því í ómerktri votri gröf.
Það er því í raun engin einn staður til að minnast látinna horfinna ástvina.
Því finnst mér þessi setning Þorsteins er áður er nefnd hér „Það vaxa ekki blóm á leiðum þeirra sjómanna er hvíla í votri gröf“ merkileg og sterk.
Það hefur því verið ákveðið að laugardaginn 31. maí n.k. kl 17.00 mun Húni ll EA 740 leggja úr höfn og sigla út á Eyjafjörð þar sem við munum minnast horfinna og látinna sjómanna með hugleiðslu Séra Magnúsar Gunnarssonar og bæn og í framhaldinu þá gætu aðstandendur einmitt lagt eins og eina rós í hafið, í minningu þeirra ástvina er hvíla í votri gröf.
Allir sem vilja eru velkomnir meðan pláss er í skipinu en skipið tekur 70 farþega og vonandi er og verður þetta héðan í frá órjúfanlegur hluti hátíðarhalda sjómanndags á Akureyri.
Skipið fer frá fiskihöfninni norðan við Útgerðarfélagið stundvíslega kl 17.00 og áætlað er að siglingin taki um það bil eina klst.
Athugið:
Það eru allir velkomnir með í þessa siglingu meðan skipspláss leyfir, sem vilja minnast látinna sjómanna og skiptir þá einu hvort viðkomandi hafi farist í hafi eða hvíli í kirkjugarði.
Stundin er til að minnast þeirra sem vörðuðu vegin fyrir okkur. Það gerum við fallega með að eiga hljóða stun í bæn og þökk og leggja svo rós á vinnustað þeirra."