"Við gerum ráð fyrir að byrja að höggva jólatré fyrir almenning síðar í þessum mánuði, en sala hefst svo í desember," segir Johan. Hann segir að aukin áhersla hafi verið lögð á það undanfarin ár að bjóða fjölskyldum að koma í skóginn og höggva sitt eigið jólatré. Allar helgar í desember fram að jólum verður þannig opið í skóginum við Laugaland í Þelamörk frá kl. 12 til 15 og geta fjölskyldur, hópar eins og starfsmannafélög fyrirtækja gert sér glaðan dag, komið í skóginn með kakó á brúsa og leitað uppi heppilegt tré fyrir sig og sína. "Það er miklu meiri stemmning að fara með vinum og fjölskyldu út í skóg og höggva jólatré og gera sér glaðan dag í leiðinni heldur en að kaupa tré úti í bæ," segir Johan.
Skógræktarfélagið selur líka tré í Kjarnaskógi og segir Johan að reynt sé að skapa þar skemmtilega jólastemmningu. Hann segir að í ljósi ástands efnahagsmála megi gera ráð fyrir að minna verði um innflutt jólatré á boðstólum fyrir þessi jól en áður og svo gæti farið að undir það síðasta að skortur yrði á jólatrjám. Um helmingur þeirra jólatrjáa sem seld voru hér á landi fyrir síðustu jól voru innflutt. "Það gæti farið svo að vantaði jólatré, en auðvitað veit maður það ekki fyrr en á reynir," segir Johan.