Grímseyingar vilja fjölga ferjuferðum til eyjarinnar þar sem miklir hagsmunir eru í húfi með tilliti til fiskveiða og ferðaþjónustu. Fáar ferðir á milli hafa m.a. þau áhrif að nýr fiskur kemst oft ekki nægilega fljótt í land sem dregur úr verðgildi fisksins. Auk þess hefur þetta neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna.
Sigfús Jóhannesson, útgerðarmaður í Grímsey og fulltrúi í hverfisefndinni á eynni, segir mikið í húfi fyrir eyjaskeggja.
Hann segir Grímseyinga hafa sent umsókn til stjórnvalda um fjölgun ferða fyrir sex mánuðum en engin svör fengið. Grímseyingar afhentu bæjarstjóranum á Akureyri undirskriftarlista frá 40 íbúum í byrjun desember sl. þar sem óskað var eftir að ferjusiglingum yrði fjölgað úr þremur ferðum í fimm á viku í a.m.k. fjóra mánuði en ríkið fjármagnar reksturinn. Nánar er fjallað um málið í prentútgáfu Vikudags.
-þev