Mikill hugur í mönnum í viðskiptalífinu þrátt fyrir þrengingar

Rúmlega 70 aðilar úr viðskiptalífinu á Akureyri komu saman á Hótel KEA í morgun að tilstuðlan Skrifstofu Atvinnulífsins, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Akureyrarstofu. Markmið fundarins var að ræða stöðu athafnalífsins í ljósi efnahagsþrenginga, en fyrst og fremst að greina möguleg tækifæri sem falist geta í stöðunni fyrir fyrirtæki á Akureyri og í nágrenni.
 

Fundargestir voru sammála um að staðan væri alvarleg en engu að síður komu fram fjölmargar hugmyndir og ábendingar um tækifæri og áherslur sem nýst gætu til að milda áhrifin af þeim erfiðleikum sem fram undan eru. Hugmyndirnar snerust annars vegar um það sem mögulegt er að gera strax, en jafnframt um verkefni sem liggja lengra inn í framtíðinni og eru líkleg til að styrkja og efla svæðið til lengri tíma.

Meðal þess sem fram kom var áhersla á að opinberir aðilar yrðu að forgangsraða verkefnum í nánustu framtíð, þannig að mannfrek verkefni og verkefni sem fela í sér innlendan kostnað verði tekin framar í framkvæmdaröð en önnur, að efla ferðaþjónustu sem er til staðar og felur í sér gríðarlega möguleika og svo að leggja aukna áherslu á innlenda framleiðslu sem er í miklu mæli á Eyjafjarðarsvæðinu. Fram kom að ýmis fyrirtæki hafa þegar brugðist við og hafa sett í gang verkefni sem að þessu lúta.

Fundurinn var jákvæður og fól í sér baráttuanda og vilja til að snúa bökum saman í sókn til framtíðar. Gert er ráð fyrir að áframhald verði á þeirri samvinnu sem hófst með þessum fundi.

Nýjast