Margar hendur vinna létt verk, segir einhvers staðar og það átti svo sannarlega við á Akureyrarvelli í dag. Þar var saman kominn mikill fjöldi KA-félaga á ýmsum aldri, sem vann að því að gera allt klárt fyrir fyrsta heimaleik félagsins í 1. deild karla í knattspyrnu á föstudag. Hópur manna vann að því að setja niður ný sæti í stúkuna, aðrir hópar voru við að þrífa, raka og tína rusl, setja upp auglýsingaskilti, undirbúa tyrfingu sunnan við völlinn sjálfan og svona mætti áfram telja. Það er því ljóst að Akureyrarvöllur mun skarta sínu fegursta þegar KA-menn taka á móti Víkingum frá Reykjavík kl. 18.30 á föstudag. Ástæða er til þess að hvetja fólk til að mæta á völlinn og sýna þannig liði sínu stuðning í verki.