Mikill erill hjá lögreglunni

Talsverð ölvun var í miðbæ Akureyrar í gærkvöld og í nótt. Nokkur útköll voru vegna samkvæmishávaða í heimahúsum og töluvert af fólki í miðbænum. Tilkynnt var í gærkvöld um mann sem neitaði að yfirgefa hús þar sem að hann var gestkomandi. Maðurinn sem var talsvert ölvaður brást illa við afskiptum lögreglu. Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöðina þar sem hann var látinn sofa úr sér.

Lögregla hafði afskipti af nokkrum ökumönnum þar sem þeir virtu ekki leyfilegan hámarkshraða. Lögregla hafði einnig afskipti af ökumanni á Glerárgötu sem ók bifreið þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum. Haft var afskipti af öðrum ökumanni þar sem hann sýndi gáleysislegt aksturslag fyrir framan skemmtistað í bænum.

Í kringum miðnætti var tilkynnt um hópslagsmál á Strandgötu við Eimskipsbryggjuna. Þar hafði hópur manna komið saman til að gera upp einhvern ágreining. Grunur er um að í látunum hafi verið ekið á tvo aðila sem voru á staðnum en þeir kenndu til eymsla í fæti og baki. Grunur er um að einn úr hópnum hafi notað heimatilbúna kylfu í slagsmálunum. Hald var lagt á kylfuna sem var gerð úr röri og var um 80 sm löng. Málið í rannsókn.

Lögreglumenn á göngueftirliti í miðbæ Akureyrar höfðu afskipti af manni sem kastaði af sér vatni við skemmtistað í miðbænum. Maðurinn létti af sér á rúðuna þannig að stór hluti gesta skemmtistaðarins urðu vitni að þessu athæfi mannsins. Maðurinn má búast við kæru vegna brots á lögreglusamþykkt. Höfð voru afskipti af tveimur drengjum sem reyndu að koma sér inn á skemmtistað með því að nota skilríki annarra. Talsvert var um tilkynningar vegna samkvæmishávaða í heimahúsum eftir að skemmtistöðum bæjarins hafði lokað.

Nýjast