Mikil tækifæri í áliðnaði og tengdum greinum

Á íbúafundi sem haldinn var hjá Fjarðaáli í gær, sunnudag, kom fram í máli Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samáls, Samtaka álframleiðenda á Íslandi, að mikil tækifæri felist í áliðnaði og tengdum greinum fyrir Ísland ef rétt er á málum haldið. Þorsteinn fór yfir sögu áliðnaðar í landinu, en um tvö prósent heimsframleiðslu á áli koma frá Íslandi, eða um 800 þúsund tonn á ári. Þorsteinn sagði áhrif áliðnaðarins hafa haft margvísleg jákvæð afleidd áhrif á atvinnulíf landsmanna, dæmi um þau sé þróun klasamyndunar fyrirtækja sem sérhæfa sig í þjónustu við áliðnaðinn, þar sem íslenskt hugvit sé m.a. orðin útflutningsvara. Benti Þorsteinn á að ef horft væri til klasamyndunar í sjávarútvegi væri ljóst að umtalsverð tækifæri felist í frekari þróun íslenska álklasans. 

Um horfur í áliðnaði á næstu árum sagði Þorsteinn að nokkrir meginþættir myndu knýja vöxt iðnaðarins í heiminum. Meðal þeirra sé fyrirsjáanleg mikil aukning á notkun áls í Kína og á Indlandi samfara mannfjölgun og aukinni velmegun almennings í löndunum. Þá muni þörfin fyrir léttari málma í samgönguiðnaði heimsins, ekki síst bílaframleiðslu, kalla á meiri notkun áls til að draga  úr losun gróðurhúsalofttegunda, en þar leikur ál lykilhlutverk vegna léttleika síns og mikillar sjálfbærni, en um 70 prósent áls sem framleitt hefur verið frá upphafi er enn í notkun.

Þorsteinn sagði að vegna þróunar eftirspurnar á næstu árum muni álfyrirtækin huga að stofnun eða stækkun álvera sinna í Kína, á Indlandi og í Miðausturlöndum, einnig í Kanada og Bandaríkjunum vegna lækkandi orkuverðs þar. Hins vegar muni samdráttur í álframleiðslu í Evrópu halda áfram, einkum vegna hækkandi raforkuverðs og aukins fjárfestingarkostnaðar.

Þorsteinn sagði að lokum að gagnrýnendur áliðnaðar bentu gjarnan á mikilvægi þess að skoða aðra kosti í orkufrekum iðnaði en álframleiðslu. Af því tilefni nefndi Þorsteinn til sögunnar 55 aðra kosti sem yfir fjöldi aðila hafi skoðað með reglulegu millibili allt frá árinu 1961. Aðrir kostir hafi því svo sannarlega verið skoðaðir og sumir orðið að veruleika, svo sem Þörungaverksmiðjan á Reykhólum, nýhafin eldsneytisframleiðsla og fleira.

Á fundinum var jafnframt farið yfir helstu mæliniðurstöður í mengunarmálum fyrir árið 2011, en þær sýna mjög góðan árangur. Geir Sigurpáll Hlöðversson framkvæmdastjóri umhverfis-, heilsu- og öryggismála Fjarðaáls, fór yfir niðurstöðurnar. Þær sýna m.a. að heildarflúorlosun frá framleiðslunni voru 0,22 kílógrömm á hvert framleitt tonn af áli, sem er um 37% minna en heimilt er í starfsleyfi. Losun PFC(perflúorsambönd) er einungis um 50% þess sem heimilt er. Einnig kom fram að 99,6% aukaafurða voru endurunnin á síðasta ári og einungis 0,4% voru urðuð, eða sem nemur 170 tonnum.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjarðaáli.

Nýjast