Mikil eftirspurn eftir leiguíbúðum á Akureyri

Umskipti hafa orðið á leigumarkaði á Akureyri á örfáum mánuðum, nokkur fjöldi íbúða í eigu félaga sem leiga út íbúðir stóðu auðar á liðnu hausti en nú fá færri en vilja. Vignir Þormóðsson hjá Betri kosti segir að greinilega hafi fjölgað í bænum síðastliðna mánuði og þá sé minna byggt en var.   

Betri kostur á 50 íbúðir á Akureyri af ýmsum stærðum og leigir þær út til lengri eða skemmri tíma.  „Það er engin ein skýring á þessu að ég tel," segir hann.  „Að einhverju leyti er ungt fólk sem flutti heim til sín eftir hrun að sækja á ný út á leigumarkaðinn, en það er líka töluvert um fjölskyldufólk sem sækist eftir okkar íbúðum." Vignir kveðst verða var við að fólk sé að flytja í bæinn, þannig hafi hann fengið þrjár fyrirspurnir nú í vikunni þar sem leitað var eftir íbúðum hjá félaginu.  "Það var allt fólk sem var að flytja til Akureyrar, héðan og þaðan af landinu."  Þá nefnir hann einnig að margir vilji ekki ráðast í kaup á íbúð á þessum tíma og kjósi heldur að leiga.

Magnús Bjarnason rekstrarstjóri hjá Gránufélaginu segir að að þar hafi mynast biðlisti, en félagið á 99 íbúðir á Akureyri.  Það sé mikil breyting frá því síðastlið haust þegar um 40% íbúða félagsins stóðu auðar.  Þá var leiguverð lækkað um 15 þúsund krónur en hefur nú verið hækkað um 5.000 krónur.  „Við erum að reka félagið á núllinu, svigrúmið er ekki neitt," segir hann.  Mest eftirspurn er eftir þriggja til fjögurra herbergja íbúðum og er það fjölskyldufólk sem helst er á höttunum eftir íbúð af slíkri stærð.  „Það er greinilega skortur á íbúðum á leigumarkaðnum hvað þessar íbúðir varðar," segir Magnús.

Nýjast