Tinna Berglind Guðmundsdóttir, verslunarstjóri í versluninni Víking í miðbæ Akureyrar, hefur sterkar skoðanir á því hvað betur mætti fara í skipulagsmálum bæjarins og hvetur Akureyringa til að vera opnari fyrir verslun í heimabyggð. Vikudagur ræddi við Tinnu en viðtalið var unnið af fjömiðlafræðinemum í HA og birtist fyrst í Jólablaði Vikudags. „Það skiptir máli fyrir samfélagið sem slíkt að versla í heimabyggð t.d. fyrir jólin. Fyrirtækin borga skatta og halda hinu og þessu uppi. Ef við verslum ekki í heimabyggð þá loka verslanir og við missum störf. Það er ekki eitthvað sem við viljum,“ segir Tinna.
Hún tekur fram að til þess að halda í verslunina þurfi verslanir að vera samkeppnishæfar í verðum. Hún segir að kaupmenn á Akureyri leggi ekki mikla álagninu á vörurnar þrátt fyrir flutningskostnað sem kaupmenn þurfa að borga.
Erfitt að fá fólk í bæinn
Tinnu þykir það leitt hversu erfitt það geti verið að fá Akureyringa í miðbæinn. „Það er eins og fólk leggist í dvala eftir verslunarmannahelgina. Við þurfum að fara út um dyrnar á veturna, ekkert endilega til að versla, heldur hitta fólk, og fá líf í bæinn,“ segir Tinna.
„Við sköpum störf með því að hafa opnar verslanir og þjónustu“, segir Tinna og leggur hún til að fólk taki nýjum fyrirtækjum á Akureyri með opnum örmum, „við megum ekki vera bara já þessi er að sunnan“, segir Tinna. Henni þykir mikilvægt að bjóða þessi fyrirtæki velkomin. „Í miðbænum vantar fleiri verslanir til að trekka fólkið að, yfirvöld verða að bæta úr húsnæðismálum“, segir Tinna sem segir að skortur sé á góðu verslunarhúsnæði í bænum.
Verslun við Skátagilið?
Tinna stingur upp á að byggt verði neðan við Skátagilið, ein hæð og þrjár til fjórar verslanir, og róló og leikvöll á þakið. „Þá erum við ekki að blokka sólina sem allir eru hræddir við, sem er nánast eini sólarbletturinn á göngugötunni á vissum tímum sólarhrings.“ Hún segir þetta góða leið til að foreldrar geti sleppt börnunum aðeins og rölt í búðir án þess að hafa áhyggjur.
Netverslun hefur galla
Aðspurð um samkeppnina við netsíður í gegnum jólavertíðina kveðst Tinna vissulega finna fyrir henni. „Samkeppnin eykst við netsíður í gegnum jólavertíðina. Maður sér öll mistökin sem fólk er að gera á þessum heimasíðum því það getur ekki komið við vöruna,“, segir hún og leggur áherslu á mikilvægi þess að vera í beini snertingu við vöruna. „Þetta getur orðið dýrara ef fólk þekkir ekki vöruna sem það kaupir á netinu. Fyrir mitt leyti vil ég koma við það sem ég er að kaupa“, segir hún.
Viljum við alltaf suður?
Tinna segir mikilvægt að fólk láti vita hvað vanti í bæinn og spyr: „Viljum við alltaf þurfa að fara til Reykjavíkur til að versla eitthvað?“ . Hún bætir við: „Verslunarfólk þarf kannski að gera þarfagreiningu, vill fólk ódýrari vöru eða eitthvað af þessum dýru merkjum?“ spyr Tinna.
„Við þurfum að fara í smá ævintýraleit, hvort sem það er miðbærinn eða Glerártorg,“ segir Tinna og ítrekar það að Akureyringar verði að skoða hvað sé til í verslun á Akureyri í staðinn fyrir að rjúka alltaf suður. „Það er mikið til hérna. Kannski vantar eitthvað. Kannski erum við ekki nógu opin fyrir því að sækja okkur þá þjónustu sem til er,“ segir Tinna. Þegar fólk fari suður sé það yfirleitt ekki að spara neitt. „Yfirleitt er dýrari leiga á húsnæði fyrir sunnan og það fer beint í vöruverð,“segir hún kveðst iðulega verða vör við það að fólk taki eftir því að vöruverð sé lægra á Akureyri en Reykjavík.
Fjölbreytni mikilvæg
Tinna segir mikilvægt að verslanir séu fjölbreyttar. „Mér finnst persónulega vanta fínni búðir.-. Fólk vill t.d. geta keypt sér dýra skyrtu, okkur vantar flott merki inn í flóruna. Ekki bara eitthvað ódýrt dót,“ bætir hún við.
Tinna nefnir húsnæðið í Krónunni.. „Af hverju vill enginn opna verslun þar? Það hefur aldrei verið fullt hús af verslunum þarna síðan þetta var byggt,“ segir Tinna og þykir henni það mjög sorglegt. „Fólk sér ekki hag sinn í að stofna verslun þar sem enginn kemur og verslar“, segir hún.
Svipaða sögu sé að segja um matvöruverslun í miðbænum og segir Tinna það hörmung að þurfa að senda útlendinga í 20 mínútna göngu til að kaupa í matinn. „Margir gista hérna í miðbænum og fólk þarf að labba langa leið til að komast í búð,“ segir hún.
Tinna segir það mikilvægt að vera jákvæður. „Fyrst og fremst, opnum okkur og skoðum hvað er til. Verum jákvæðari fyrir öllu ef einhverum dettur í hug að gera eitthvað og það er vitaskuld mikilvægt að verslunareigendur bæði hér og fyrir sunnan séu með góð verð og séu samkeppnishæf á markaði. „Það styrkir samfélagið í heild og gerir lífið skemmtilegra,“, segir hún að lokum.
-SAO