Ragnar Sverrisson skrifar
Svo virðist að tekist hafi að endurvekja aftur uppbyggilega umræðu um skipulagsmál miðbæjar Akureyrar og er það fagnaðarefni. Í síðasta Vikudegi birtust tvær greinar um það málefni eftir Pál Björnsson og Jón Hjaltason. Þeir félagar nálgast umræðuefnið með talsvert ólíkum hætti. Páll er öllu jákvæðari gagnvart þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið um endurbætur á skipulaginu og hvetur til frekari vinnu til að ná þeim markmiðum að byggja þvert á ríkjandi vindáttir og mynda skjól á svæðinu. Jón hefur hins vegar allt á hornum sér og lætur eins og breytingar hafi aldrei leitt til framfara og muni aldrei gera. Hann heldur að við félagar séum á öndverðum meiði um nær allt sem lýtur að framkvæmd miðbæjarskipulags. Ég held því hins vegar fram að við höfum sömu sýn á mörg atriði í þeim efnum: minnka umferð, haga skipulagi á þann veg að skjól og birta verði meiri í miðbænum, leggja rækt við eldri hús sem þar eru fyrir, sjá til þess að ný hús verði ekki hærri en þriggja til fjögurra hæða í samræmi við þau sem fyrir eru og svo vörum við báðir við bútasaum í skipulagsvinnu. Vert er að minna á að Akureyri í öndvegi beitti sér á sínum tíma hart fyrir því að hætt var við að byggja ógnarháar byggingar á hinum svonefnda Sjallareit. Sú barátta bar árangur. Við Jón Hjaltason erum því sálufélagar um lágreista byggð á svæðinu og ekki geta ný hús sem verða lægri en flest þeirra sem fyrir eru spillt þeirri sameiginlegu gleði okkar.
Jóni varð tíðrætt um deiliskipulagstillögu á Drottningarbrautarreitnum. Þar erum við raunar á sitt hvorri skoðuninni og mun ég ekki endurtaka rök mín hér enda komu þau fram í Vikudegi nýlega. Búið er að staðfesta umrætt deiliskipulag og fagna ég því enda er þá loks hægt að sinna umsóknum um byggingar vestan brautarinnar og framkvæmdir geta hafist fljótlega. Framundan er hins vegar að útfæra miðbæinn frá Torfunefi að Strandgötu. Hin sjúklega síkisumræða undanfarin ár hefur ruglað besta fólk og margir haldið að miðbæjarskipulagið snúist einasta um síki eða ekki síki. Páll segir með réttu að ekki skipti öllu máli hvort vatnið sé 30 cm djúpt eða skipsfært. Aðalatriðið sé að þar með er búið að beina niðurröðun húsa í austur-vestur átt. Sú óskaplega hræðsla sem gert hefur vart við sig að nýta vatn til þess arna vekur furðu. Í því sambandi má benda á að vatn umlykur Hörpuna í Reykjavík og er til mikillar prýði; ekki er vitað um að þar hafi verið efnt til undirskriftasöfnunnar til að mótmæla þeirri útfærslu. Þvert á móti hefur hún fengið mikið lof og verðlaun. Þá má benda á Ráðhúsið í Reykjavík þar sem vatn er allt um kring. Ég held því að það sé rétt hjá Páli að mikilvægast sé að halda vinnunni við miðbæjarskipulagið áfram og skoða fyrri tillögur og ræða áhugaverðar útfærslur af yfirvegun en ekki með hrópum og köllum.
Að lokum fagna ég því að farið er að nýta neðsta hluta Skátagilsins fyrir fjöldasamkomur eins og við nokkrir félagar lögðum til í grein í Morgunblaðinu á síðasta sumri. Þar var vakin athygli á að Skátagilið væri perla sem hlúa ætti betur að og hefjast þyrfti handa um að endurksipuleggja gilið og nýta betur. Unga fólkið sem safnaðist þar saman til söngs undir styrkri stjórn kennara sinna hefur með því vakið fleiri til umhugsunar um að þarna sé ákjósanlegur útisamkomustaður enda þótt mikið verk sé óunnið svo aðstaðan verði sæmandi höfuðstað Norðurlands. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða eins og gildir raunar um svo margt sem horfir til bóta í miðbænum okkar. Komum okkur að verki.
Höfundur er kaupmaður.