„Ástæðan fyrir því að ég réðst í að skrifa þessa bók er fyrst og fremst sú að mér fannst og hefur lengi fundist vanta að segja þessa sögu. Þetta er að mínu mati merkilegur kafli í sögu Akureyrar sem aldrei hefur að fullu verið sagður og jafnframt áhugaverður kafli í sögu heilbrigðismála í landinu. Í gegnum tíðina hef ég í grúski mínu rekist á eitt og annað í tengslum við Akureyrarveikina sem hefur vakið forvitni mína. Fyrir rúmum tveimur árum hugsaði ég sem svo að ef ætti að segja þessa sögu mætti ekki bíða lengur, mikilvægt væri að ná til fólks sem veiktist á sínum tíma og væri enn á meðal vor. Ég hélt því af stað í þessa óvissuför og er núna kominn í höfn. Þetta hefur verið gríðarlega áhugavert og ég hef komist að því að þessi saga er mun merkilegri og teygir anga sína mun víðar en ég hefði getað ímyndað mér,“ segir Óskar Þór Halldórsson um nýja bók sína um Akureyrarveikina.
Óskar Þór Halldórsson hefur aflað heimilda úr ýmsum áttum til þess að varpa ljósi á Akureyrarveikina og afleiðingar hennar
Útgáfudagur bókarinnar er á morgun, föstudaginn 29. ágúst, sem er afmælisdagur Akureyrar. „Mér fannst fara vel á því að gefa bókina út á afmælisdegi bæjarins og ég mun fylgja henni úr hlaði í útgáfuhófi kl. 17 í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri. Þangað býð ég öllum að koma sem áhuga hafa á þessari sögu.“ Auk þess sem Óskar Þór segir frá bókinni flytja ávörp læknarnir Friðbjörn Sigurðsson og Kristín Sigurðardóttir, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Kristín Sóley Sigursveinsdóttir. „Það er engin tilviljun að ég vel að kynna bókina í húsakynnum MA því á heimavist skólans í Gamla skóla var gríðarlega mikill faraldur og veiktist um helmingur vistarbúa. Í það heila veiktust um hundrað menntskælingar og var skólinn lokaður frá 17. nóvember til 10. desember 1948 og hann var ekki opnaður að loknu jólaleyfi fyrr en upp úr miðjum janúar,“ segir Óskar Þór.
Einnig verður kynning á bókinni föstudaginn 5. september nk. kl. 17:00 í sal Læknafélags Íslands að Hlíðarsmára 8 í Kópavogi. Þar mun Óskar Þór segja frá bókinni og einnig flytja ávörp Friðbjörn Sigurðsson læknir við Akureyrarklíníkina, Kristín Sigurðardóttir læknir í Reykjavík, Sigurður Guðmundsson fyrrverandi landlæknir og Ásta Þórunn Jóhannesdóttir varaformaður ME-félags Íslands.
Dularfullur sjúkdómur
Aldrei hefur tekist að finna út hvers konar sjúkdómur Akureyrarveikin var en vísindamenn hallast þó að því að um hafi verið að ræða veirusýkingu. Af hvaða stofni veiran var hefur ekki verið unnt að fnna út, enn sem komið er að minnsta kosti. Faraldurinn hófst haustið 1948 og var fyrsta tilfellið staðfest á Svalbarðsströnd í september. Í október voru staðfest nokkur tilfelli á Akureyri. Faraldurinn færðist síðast í aukana þegar komið var fram í nóvember og desember. Á fyrstu vikunum töldu læknar á Akureyri og heilbrigðisyfirvöld í landinu að um væri að ræða mænuveiki – öðru nafni lömunarveiki – sem var þekktur sjúkdómur á Íslandi frá því um aldamótin 1900 því einkennin voru um margt lík. En þegar faraldurinn var orðinn svo víðtækur og veikin var því augljóslega bráðsmitandi tóku læknar að efast um að þetta gæti verið mænuveiki. Aldurssamsetning hinna veiku var önnur en þekkt var úr mænuveikifaröldrum, hlutfallslega mun fleira yngra fólk veiktist en í mænuveiki, áberandi fleiri konur veiktust en karlar og síðast en ekki síst dó enginn af þeim mikla fjölda sem veiktist af Akureyrarveikinni en þekkt var að mænuveikin gat dregið fólk til dauða.
Akureyrarveikin lék Snorra Sigfússon skólastjóra og námsstjóra og fjölskyldu hans í Hrafnagilsstræti 8 afar grátt. Snorri var einn þeirra fjölmörgu Akureyringa sem leituðu sér lækninga í Danmörku.
Faraldurinn skæðastur á Akureyri
Í því ljósi að læknar efuðust um að þetta væri mænuveiki voru tekin sýni úr sjúklingum á Akureyri í janúar 1949 og send til Bandaríkjanna til þess að fá úr því skorið hvort í þeim væri polio-veiran (mænuveikiveiran) eða ekki. Rannsóknirnar staðfestu að þetta var ekki mænuveiki en hins vegar svöruðu þær ekki þeirri spurningu hvers konar veiki þetta var. Enn er þeirri spurningu ósvarað. Að þessum niðurstöðum fengnum var farið að kalla þessa veiki Akureyrarveiki, einfaldlega var með því vísað til þess að faraldurinn var skæðastur á Akureyri. Segja má að hann hafi þar verið að mestu um garð genginn í mars 1949. En vissulega barst veikin frá Akureyri út um allt land, t.d.í Skagafjörð, Vestur-Húnavatnssýslu (meðal annars var Reykjaskóli í Hrútafirði settur í sóttkví um jólin 1948 og nemendur urðu því að gera sér að góðu að halda jólin í skólanum) og vestur á Ísafirði var mjög alvarlegur faraldur á fyrstu mánuðum 1949. Veikin stakk sér líka niður í Reykjavík en læknar þar, með vitund og vilja landlæknis, héldu veikindatilfellunum leyndum og skráðu í læknaskýrslur undir dulnefninu vírusveiki.
Á Akureyri skráðu læknar 465 tilfelli Akureyrarveikinnar en löngu síðar litu þeir í baksýnisspegilinn og áætluðu að þau hefðu verið allt að eitt þúsund eða sem næst 15% bæjarbúa. Margir fóru mjög illa út úr veikinni, sumir náðu sér á löngum tíma en aðrir glímdu við alvarleg eftirköst hennar lífið á enda.
Vegna faraldurs Akureyrarveikinnar var sett á samkomubann á Akureyri og um tíma var fólki við utanverðan Eyjafjörð bannað að fara til Akureyrar. Myndina tók Guðmundur Bergmann Jónsson sumarið 1947
Annar faraldur Akureyrarveikinnar 1955-1956
„Það er svo ótal margt afar áhugavert við þessa veiki. Sex árum eftir að faraldurinn gekk yfir á Akureyri og víðar stakk Akureyrarveikin sér aftur niður veturinn 1955-1956, annars vegar á Vestfjörðum – mest á Patreksfirði og Barðaströnd – og hins vegar í Þistilfirði. Sem sagt á tveimur landshornum á sama tíma, sem verður að teljast ótrúlegt. Það var staðfest með greiningum á Keldum að aftur hafði Akureyrarveikin látið á sér kræla.
Ég tók strax þann pólinn í hæðina að nálgast viðfangsefnið með því annars vegar að sökkva mér niður í allar þær rituðu heimildir sem ég gæti komist yfir, m.a. heilbrigðisskýrslur landlæknisembættisins, blaðagreinar, viðtöl og greinar, bæði innlendar og erlendar. Þessi veiki er þekkt út um allan heim læknisfræðinnar sem Akureyri Disease eða Iceland Disease, eini sjúkdómurinn sem er kenndur við Ísland. Ég vann líka upp úr öllum tiltæknum gögnum á Þjóðskjalasafni, fyrst og fremst gögnum frá landlæknisembættinu og héraðslæknum víða um land. En í mínum huga er alveg ljóst að ég hefði aldrei getað skrifað þessa sögu án þess að tala við allan þann mikla fjölda fólks sem ég hef rætt við, bæði fólk sem veiktist og afkomendur fólks sem veiktist. Allir tóku mér einstaklega vel og greiddu götu mína, sögðu sínar sögur, í mörgum tilfellum mjög átakanlegar. Öllu þessu góða fólki kann ég miklar og góðar þakkir. Ég fékk fljótlega á tilfinninguna að með því að skrifa þessa sögu, hvort sem faraldurinn var á Akureyri, í Vestur-Húnavatnssýslu, Reykjavík, á Patreksfirði eða Þistilfirði, væri ég að opna geymsluhólf þar sem Akureyrarveikin hafði legið í þagnargildi í áratugi. Mörgum var létt að heyra að loksins eftir öll þessi ár væri opnað á þessi sár, sem margir höfðu lengi borið í hljóðum harmi. Um veikina ríkti ákveðin þöggun.“
Akureyrarveikin fór eins og eldur í sinu um Akureyri. Þessa mynd tók Guðmundur Bergmann Jónsson sumarið 1947 í suður frá Hamarkotsklöppum
Líkindi með Akureyrarveikinni, ME-sjúkdómnum og langvarandi eftirköstum COVID
„Þegar ég hóf ritun þessarar bókar hafði ég ekki vitneskju um að ákveðin líkindi væru með Akureyrarveikinni, ME-sjúkdómnum og langvarandi afleiðingum COVID 19. En fljótlega komst ég að raun um að svo er og því fjalla ég í síðari hluta bókarinnar um þessa sjúkdóma og velti upp ýmsum hlutum í því sambandi. Jafnframt birti ég afar sláandi frásagnir fólks sem hefur lengi verið að glíma við ME í kjölfar hinna ýmsu veirusjúkdóma, t.d. COVID, einkirningasóttar, svínaflensu og fleira. Ég trúi því og raunar veit að þessi bók er þarft innlegg í þær rannsóknir sem eru út um allan heim í því skyni að bæta líðan þeirra milljóna sem þjást af ME. Það má með rökum halda því fram að Akureyrarveikin hafi verið fyrsti þekkti ME-sjúkdómurinn á Íslandi,“ segir Óskar Þór.
Útgáfuhóf í Kvosinni í MA 29. ágúst kl. 17:00
Bókin um Akureyrarveikina verður kynnt í Kvosinni, samkomusal Menntaskólans á Akureyri, kl. 17:00 föstudaginn 29. ágúst. Þar taka til máls auk höfundar Friðbjörn Sigurðsson læknir við Akureyrarklíníkina, Kristín Sigurðardóttir læknir í Reykjavík, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Kristín Sóley Sigursveinsdóttir á Akureyri.
Svarfdælasýsl forlag gefur bókina út og verður hún til sölu í Kvosinni. Bókin verður síðan til sölu hjá Svarfdælasýsl forlagi. Hana verður hægt að panta hjá höfundi með tölvupósti á netfangið oskarthor61@gmail.com, hringja í síma 898 4294 eða með skilaboðum á höfund á Facebook. Einnig verður bókin seld í bókaverslun Forlagsins að Fiskislóð 39 í Reykjavík