Margt verður um að vera í Hofi á morgun laugardag, meðal annars munu mannakorn vera þar með tónleika og flytja mörg af sínum vinsælustu lögum. Eftirfarandi viðburðir munu verða á morgun:
Opnun sýningarinnar Þrjár systur - Margrét, Þórdís og María.
Listin og handverkið hefur skipað stóran sess í lífi þeirra systra frá barnæskunni á Akureyri. Þær hafa allar tekið þátt í samsýningum og haldið einkasýningar, en þetta er í fyrsta skipti sem þær sýna saman. Viðfangsefni þeirra á þessari sýningu eru blóm og við þau fást þær hver á sinn hátt með mismunandi miðlum. Hér fær áhorfandinn að upplifa áhrif blómanna ýmist í fíngerðum þráðum útsaumsins, brothættum og loftkenndum leirrósettum og litsterkum blómum olíumálverksins. Margrét snýr gjarnan hlutunum á hvolf, snýr röngunni á réttuna og tekur engu sem gefnum hlut. Hér sýnir hún rósettur á gólfinu sem áhorfendur þurfa að ímynda sér að hangi í loftinu og "rauða herbergið hans Mattisse" er orðið að þrívíðu verki. Þræðir Þórdísar liggja til fortíðar, hún sækir innblástur í gamlar handverkshefðir formæðranna, hún tínir blóm úr gömlum púðum og af veggteppum og skapar sinn eigin fallega blómaskrúða. María leggur upp í andlegt ferðalag inn í risavaxin blómin. Hún bíður áhorfendum að koma með og njóta augnabliksins, hugleiða og upplifa óendanleg ævintýri.
Tónleikar Flensborgarkórsins
Flensborgarkórinn er hafnfirskur kór ungs fólks á aldrinum 18-30 ára undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg. Kórinn var stofnaður árið 2008 af fyrrverandi meðlimum Kórs Flensborgarskólan. Efnisskrá Flensborgarkórsins á þessum tónleikum er mjög fjölbreytt þar sem erlend kórverk eru fyrirferðarmeiri en þau íslensku. Mörg erlendu verkanna hafa ekki oft verið flutt á Íslandi áður og má þar nefna ástralska frumbyggjasögu með tilheyrandi frumskógarhljóðum. Meðal höfunda verka á efnisskrá má nefna Knut Nystedt, Cyrillus Kreek, Vytautas Mis?kinis, Hildigunni Rúnarsdóttur, Báru Grímsdóttur og Hafstein Þráinsson einn meðlima kórsins en verk hans Vonir var frumflutt af kórnum í maí s.l. Af þeim verkefnum sem kórinn hefur tekið þátt í má nefna kóramót í Serbíu 2011 og kórakeppni í Pétursborg í Rússlandi 2010 þar sem kórinn vann til gullverðlauna í flokki blandaðra kóra. Tónleikarnir hefjast kl 16:00
Mannakorn
Hljómasveitina Mannakorn þarf ekki að kynna fyrir Íslendingum. Sveitin mun halda tónleika kl. 20. Fyrsta plata Mannakorna kom út árið 1975 og hefur hljómsveitin komið reglulega fram síðan þá og gefið út alls 12 plötur. Nú í sumar kemur út nýjasta plata Mannakorna. Á tónleikunum í Hofi mun hljómsveitni flytja rjómann af sínum vinsælustu lögum.