Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis afgreiddi á fundi sínum í morgun, nefndarálit að frumvarpi fjármálaráðherra um fjármögnun Vaðlaheiðargagna. Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar segir að meirihluti nefndarinnar leggi til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Fulltrúar VG, Samfylkingar og Framsóknar stóðu að samþykktinni, það lagðist enginn gegn því að málið yrði afgreitt úr nefndinni en fulltrúar Sjálfstæðiflokks munu verða með sérálit, að sögn Björns Vals. Málið er því komið til þingsins á ný, þar sem það verður tekið til annarrar umræðu og segist Björn Valur bjartsýnn á að þar komist málið á dagskrá um leið og menn hætti að ræða um hvort þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um drög að stjórnarskrá. Hann er bjartsýnn á að Vaðlaheiðargöng komist á dagskrá í þessari viku og að málið verði samþykkt fyrir þinglok. Ég á eftir að sjá menn leggjast gegn þessari framkvæmd, sagði Björn Valur.
Um er að ræða frumvarp til laga um heimild til að undirrita lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf. en kostnaður við gangaframkvæmdina er áætlaður um 8,7 milljarðar króna án virðisaukaskatts. Samkvæmt frumvarpinu skulu Vaðlaheiðargöng hf., eignir þess og tekjustreymi vera fullnægjandi tryggingar fyrir láninu.