Matargafir og NorðurHjálp snúa bökum saman

Sigrún Steinarsdóttir hjá Matargjöfum á Norðurlandi
Sigrún Steinarsdóttir hjá Matargjöfum á Norðurlandi

„Staðan er bara hreint út sagt ömurleg. Með þessari samvinnu erum við að bregðast við aukinni ásókn í aðstoð úr samfélaginu um þessar mundir og vonum svo sannarlega að við komust í gegnum þá þungu mánuði sem fram undan eru,“ segir Sigrún Steinarsdóttir hjá Matargjöfum á Norðurlandi. Tvö mannúðarfélög sem starfa á Akureyri og sinna Norðurlandi öllu hafa tekið ákvörðun um að láta reyna á samstarf sín á milli, en þetta eru félögin Matargjafir og NorðurHjálp.

Sigrún segir mikla neyð ríkja hjá fjölda fólks, það nær engan vegin endum saman og leitar því á náðir mannúðarsamtaka eins og Matargjafa og NorðurHjálpar. Hún segir að mikil og vaxandi ásókn hafi verið í aðstoð allt þetta ár og nú séu þyngstu mánuðir ársins, frá nóvember, desember, janúar og febrúar. „Þetta er yfirleitt mjög þungir og erfiðir mánuðir fyrir marga sem lítið hafa milli handanna. Við ákváðum því að snúa bökum saman og gera okkar besta þannig að hægt verði að hjálpa sem flestum. Það er fátt verra en þurfa að neita fólki í neyð um aðstoð,“ segir hún.

Inneignarkort afgreidd til skiptis

Matargjafir og NorðurHjálp munu næstu mánuði hafa þann háttinn á að útdeilda Bónuskortum til skipts, þannig er hægt að fá inneignarkort hjá NorðurHjálp núna í nóvember og hjá Matargjöfum í desember. Einnig verður tveimur fyrstu mánuðum næsta árs skipt upp með sama hætta, NorðurHjálp úthlutar í janúar og Matargjafir í febrúar.

„Við grípum til þessa ráðs því við höfum ekki úr nægu fé að spila, hvort félag um sig hefur ekki bolmagn til að úthluta inneignarkortum í hverjum mánuði. Við erum á fullu að afla fjár og þar kemur nærsamfélagið sterkt inn,“ segir Sigrún en bætir við að sjá megi merki þess að skóinn sé farinn að kreppa hjá millistéttarfólki sem um árin hafi verið helsti bakhjarl félagsins. „Það er greinilegt að efnahagsástandið á um liðnum árum hefur leikið marga grátt, það eru dæmi þess að úr hópi okkar öflugustu stuðningsaðila sé fólk sem nú er að berjast í bökkum og má ekki við því að styrkja við okkur áfram. Þess eru jafnvel dæmi að okkar fyrrum stuðningsfólk þurfi að leita til okkar.“

Skráning fyrir jólaaðstoð að hefjast

Á liðnu ári greiddu Matargjafir út inneignarkort fyrir 7 milljónir króna. Sigrún á von á að álíka margir eða fleiri leiti eftir aðstoð fyrir jólin nú í ár. Skráning hefst á laugardaginn, 15. nóvember og úthlutun verður um miðjan desember. Matargjafir hafa sent út bréf til fyrirtækja á svæðinu og óskað eftir styrkjum og er þess að vænta að svör berist innan tíðar.

„Mér finnst líklegt að það verði stór hópur sem skráir sig fyrir aðstoð hjá okkur núna, hópurinn hefur farið stækkandi ár frá ári undanfarin ár,“ segir Sigrún og bindur því vonir við að viðbrögð við söfnun styrkja verði góð.

Hún nefnir að nokkrar hárgreiðslustofur gefi börnum klippingu fyrir jól og þá sé einnig hægt að nálgast fatnað, skó og skógjafir í gengum Matargjafir og NorðurHjálp. „Það er margir til í að leggja okkur lið og við erum mjög þakklát fyrir velviljann. Þetta væri ekki hægt öðruvísi.“

Mikil umferð í matarhorn

Í NorðurHjálp hefur verið komið upp matarhorni þar sem hægt er að nálgast matvæli af ýmsu tagi fyrir þá sem þurfa á að halda og er sjálfboðaliði frá Matargjöfum við störf þarf þegar opið er. „Það koma margir, þörfin er greinileg mikil, mér finnst sá hópur sem stendur höllum fæti í okkar samfélagi sífellt stækka og það er mjög dapurlegt. Við reynum hvað við getum að rétt fólki lið,“ segir Sigrún.

Nýjast