Marokkóskur lambapottréttur og saltfisksalat

Arnbjörg Sigurðardóttir lögmaður á lögmannsstofunni Strandgötu 29, tók áskorun mágkonu sinnar Höllu Einarsdóttur og er hér mætt með girnilegar uppskriftir í matarkrók vikunnar. “Ég er voða hrifin af Norður-afrískum mat.  Það er oft svo margslungið bragð að honum, sætt og súrt og alls konar skemmtileg krydd.  Þess vegna ákvað ég að vera með uppskrift að gómsætum marokkóskum lambapottrétti.  Vinnan við hann er fljótleg og einföld en maður þarf hins vegar gera ráð fyrir tíma til að marinera kjötið og til að láta þetta malla í tvo tíma þannig að þetta er ekki svona réttur sem maður ákveður á síðustu stundu að hafa. Og af því að sumarið er vonandi rétt handan við hornið er ég líka með uppskrift að sumarlegu saltfisksalati sem hefur fallið vel í kramið í veislum hjá okkur. Þetta salat er líka frábært að taka með á fallegan stað í lautarferð eða borða úti á palli í sólskini,” segir Arnbjörg.

Marokkóskur lambapottréttur með möndlum og apríkósum 

1,2 kg lambakjöt í bitum

1 tsk. af hverju kryddi: engifer, kanill, svartur pipar

½ tsk. af hverju: túrmerik, cayenne pipar, kardimommur, kóríander, múskat og negull

½ bolli vatn

3 msk. smjör

2 laukar, saxaður

4-5 hvítlauksrif, smátt söxuð

2 kanilstangir 

3 bollar kjúklingasoð

1½ bolli þurrkaðar apríkósur skornar í bita

1½ bolli heilar möndlur, án  hýðis

1/3 bolli hunang

1-3 msk. sítrónusafi

3-5 gulrætur í sneiðum

½ bolli fersk söxuð steinselja

Hrærið engifer, kanil, pipar, turmerik, cayenne pipar, kardimommur, kóríander, múskat, negul og vatn saman í skál.  Bætið kjötinu saman við og dreifið kryddinu vel á.  Setjið í lokað ílát og geymið í ísskáp yfir nótt. 

Bræðið smjör, helst í þykkbotna potti.  Setjið lauk, hvítlauk og kanilstangir út í og leyfið þessu að krauma aðeins við frekar lágan hita þar til eldhúsið fyllist góðum ilmi.  Bætið kjötinu út í og svo kjúklingasoðinu.  Náið upp suðu og fleytið froðu ofan af.  Lokið pottinum og látið þetta malla við vægan hita í svona einn og hálfan tíma.  Bætið smá við vatni á suðutímanum ef þörf krefur. 

Setjið apríkósur, möndlur, hunang og gulrætur út í og sjóðið án loks í u.þ.b. hálftíma og hrærið reglulega.  Sósan á að verða eins og hálfgerður sírópsgljái.  Smakkið til með sítrónusafanum.  Takið pottinn af eldavélinni, hrærið saxaðri ferskri steinselju saman við og berið fram með kúskús og góðu salati.  

Saltfisksalat

400 g soðnar kartöflur, sneiddar

200 g soðinn saltfiskur, í bitum

1 rauð og 1 gul paprika, í strimlum

4 stórir tómatar, skornir í þunna báta

1 stór rauðlaukur, hálfir hringir

1 bolli grænar ólífur

½ steinseljubúnt, klippt aðeins niður en ekki mjög smátt 

Sósa (allt hrært vel saman):

½ dl. extra virgin ólífuolía

1 msk. vatn

1 msk. hvítvínsedik

1 tsk. nýmalaður svartur pipar

Raðið kartöflusneiðunum í víða skál og dreypið smá sósu yfir.  Setjið saltfiskinn yfir og leggið svo tómata, papriku og rauðlauk í lögum þar ofan á.  Hellið sósunni yfir allt saman, dreifið svo ólífum yfir og loks steinselju.  Gott að hafa snittu- eða hvítlauksbrauð með og hvítvínstár spillir ekki. 

Nýjast