Margt rætt á stjórnarfundi Framsýnar

Stjórn Framsýnar fundar um mikilvæg málefni. Myndin er fengin af vef Framsýnar
Stjórn Framsýnar fundar um mikilvæg málefni. Myndin er fengin af vef Framsýnar

Þann 7. apríl var stjórnarfundur hjá Framsýn. 13 mál voru á dagskrá og eins og oftast áður talsverðar umræður á fundinum.
Meðal annars greindi Aðalsteinn Á. Baldursson formaður framsýnar frá samskiptum við verktaka á svæðinu frá því að framkvæmdir hófust á Bakka og Þeistareykjum. Þau hafa að mestu gengið vel og ágæt bjartsýni á að áframhald verði á því, enda virkt eftirlit í gangi af hálfu stéttarfélaganna. Nýr starfsmaður, Aðalsteinn J. Halldórsson hefur hafið störf við vinnustaðaeftirlit og mun hann verða í miklum samskiptum við vertaka á svæðinu á komandi mánuðum.
Undirbúingur fyrir 1. maí hátíðarhöldin er í fullum gangi en reiknað er með því að hátíðin verði með svipuðu sniði og venjulega. Endanleg dagskrá er ekki fullmótuð en búist er við því að hún verði orðin ljós á næstu dögum.
Fram undan eru aðalfundir félaga sem Framsýn mun sækja. 11. apríl verður aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í Skúlagarði og mun Framsýn senda fulltrúa þangað. Framsýn mun áfram eiga fulltrúar í stjórn Atvinnuþróunarfélagsins. Framundan er sömuleiðis aðalfundur Lífeyrissjóðsins Stapa, en hann verður haldin 4. maí. Framsýn á rétt á 11 fulltrúum á fundinn.
Aðalfundur Framsýnar er fyrirhugaður seinni hluta maí. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.
Ennfremur kom fram að Framsýn hefði áhuga á að koma að lausn þess íbúðarvanda sem blasir við á Húsavík. Dæmi eru um að fólk sé að flytja burt af svæðinu vegna húsnæðisskorts sem er auðvitað óásættanlegt. Ýmsar leiðir eru ræddar af hálfu hins opinbera sem og einkaaðila til lausnar á vandamálinu og er Framsýn tilbúið til að koma að þeim viðræðum. (framsyn.is)

Nýjast