Málið er í vinnslu

„Ég las viðtal ykkar í Vikudegi við Halldór Jóhannsson og hef heyrt í honum símleiðis eftir það. Á þessari stundu get ég sagt að málið er í vinnslu og því verður hraðað," segir Kristján L. Möller samgönguráðherra. Þarna er ráðherra að vísa til ummæla Halldórs Jóhannssonar framkvæmdastjóra KEA um að félagið sé tilbúið til viðræðna við yfirvöld um flýtifjármörgun vegna lengingar flugbrautarinnar á Akureyri og þeirra framkvæmda sem þarf að ráðast í samhliða lengingunni.

Halldór sagði að ef aðkoma KEA yrði til þess að framkvæmdum yrði flýtt stæði ekki á KEA-mönnum að ganga til viðræðna um aðkomu að málinu. Kristján Möller samgönguráðherra segist fagna þessum áhuga. „Ég ítreka að málið er í vinnslu, því verður hraðað sem kostur er og persónulega hef ég alveg jafn mikinn áhuga á framgangi þessa máls og ég hef haft áður," sagði ráðherra.

Rætt hefur verið um að lenging flugbrautarinnar um 500 metra kosti á bilinu 400-500 milljónir króna. Þar fyrir utan er gerð öryggissvæða og aðflugsbúnaður af fullkomnustu gerð sem á að leiða til þess að hægt verður að nýta flugbrautina mun betur en ella. Heildarkostnaður við verkið gæti því numið allt að 700 milljónum króna.

Nýjast