11. desember, 2007 - 16:35
Tvö af þeim fjórum verktakafyrirtækjum sem buðu í 4. áfanga nýbyggingar við Háskólann á Akureyri buðu í verkið að nýju, Tréverk ehf. og Ístak hf. Framkvæmdasýsla ríkisins mælir með því að tilboði fyrrnefnda félagsins verði tekið og er það nú til skoðunar í menntamálaráðuneytinu. Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri segir að málið sé í réttum farvegi. „Nú er í það minnsta komið tilboð sem framkvæmdasýslan telur viðunandi og ég vona að stjórnvöld samþykki það og framkvæmdir geti hafist upp úr áramótum." Bygging 4. áfanga við HA hefur tvívegis verið boðin út, tilboð voru umtalsvert yfir kostnaðaráætlun í bæði skiptin en tvö bárust í fyrra skiptið og fjögur í það síðara. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 550 milljónir króna, en nýbyggingin er um 2.300 fermetrar að stærð. Enn sem komið er þykir Þorsteini ekki ástæða til að hafa áhyggjur af seinkun verksins, en áætlað er að því ljúki í lok maí árið 2010.