Mælt með Stefáni sem rektor Háskólans á Akureyri

Háskólaráð Háskólans á Akureyri ákvað á fundi sínum í morgun að mæla með því að Stefán B. Sigurðsson, prófessor og forseti læknadeildar Háskóla Íslands verði ráðinn næsti rektor háskólans á Akureyri, samkvæmt heimildum Vikudags. Eftir að valnefnd hafði farið yfir umsóknirnar voru þrír umsækjendanna líklegastir, þeir Stefán, Guðmundur Heiðar Frímannsson og Ingi Rúnar Eðvarðsson.  

Tillaga háskólaráðs verður síðan lögð fyrir Háskólafund sem hefur verið boðaður þann 26. maí nk. og er „umsögn háskólafundar um ráðningu rektors" eina formlega dagskrármálið. Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Staða rektors var auglýst laus til umsóknar í janúar og alls bárust sex umsóknir. Eftirfarandi umsækjendur voru um stöðuna, í stafrófsröð: Bjarki Jóhannesson, sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar; Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri; Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor í stjórnun við Háskólann á Akureyri; Ívar Jónsson, forstöðumaður þjóðdeildar Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns; Stefán B. Sigurðsson, prófessor og forseti læknadeildar Háskóla Íslands; og  Zhanna Suprun, verkfræðingur.
Háskólaráð tilnefndi á sínum tíma tvo menn og menntamálaráðuneytið einn mann í nefnd til að meta hæfni umsækjenda. Hæfnin þeirra var síðan metin í ljósi heildarmats, með tilliti til vísinda- og útgáfustarfa, ferils sem háskólakennari eða í öðrum störfum, rekstrar og stjórnunarreynslu og með tilliti til þess hversu menntun og reynsla viðkomandi muni nýtast í starf i rektors.

Nýjast