Mæðrastyrksnefnd leitar til stofnana og fyrirtækja vegna jólaúthlutunar

Starfskonur Mæðrastyrksnefndar hafa undanfarna daga verið að afla fjár til að standa straum af úthlutun til fólks sem til þeirra leitar fyrir jólin.  Engin úthlutun var á vegum nefndarinnar nú í nóvember, peningar voru á þrotum og ekki hægt að veita aðstoð þann mánuð.  

Jóna Berta Jónsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar á Akureyri segir að send hafi verið út bréf til fyrirtækja og þá hafi nefndarkonur einnig heimsótt fyrirtæki og stofnanir. „Við höfum ekki fengið mikið af svörum enn við okkar málaleitan, en það er fjöldi fyrirtækja hér í bænum sem hefur stutt okkur og ég á ekki von á öðru en að svo verði einnig í ár.  Við finnum hvarvetna fyrir mikilli velvild og í okkar garð og vilja til að styrkja okkar starfsemi," segir Jóna Berta. „Ég er því vongóð um að vel verði tekið í beiðni okkur fyrir þessi jól líkt og endranær." Mikil aukning var hjá Mæðrastyrksnefnd milli áranna 2007 og 2008 og á Jóna Berta ekki von á öðru miðað við ástandið í þjóðfélaginu en að svo verði einnig í ár, meiri fjöldi muni leita eftir aðstoð nefndarinnar í ár en var í fyrra.  „All þetta ár hefur verið mjög slæmt, það hefur fjöldinn allur af fólki leitað til okkar og sem betur fer höfum við getað liðsinnt þeim sem til okkar sækja," segir hún.

Nýjast