Lýsir áhyggjum af óheillaþróun á útboðs-og vinnumarkaði

Stjórn Fagfélagsins - stéttarfélags fagfólks í byggingariðnaði, lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri óheillaþróun sem á sér stað á útboðs-og vinnumarkaði í bygginga- og verktakastarfsemi um þessar mundir. Ekki verði betur séð en að fallið hafi verið frá öllum reglum um gagnsæi og heiðarleg vinnubrögð á útboðsmarkaði.  

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ályktun sem stjórnin hefur sent frá sér. Þar segir ennfremur: Í gildi eru reglur um opinber útboð sem eiga að tryggja að allir sitji við sama borð. Í þeim reglum á m.a. að skoða hver fjárhagsleg staða fyrirtækjanna er, skil þeirra á opinberum gjöldum, skil þeirra á iðgjöldum til lífeyrissjóða og stéttarfélaga og hvernig fyrirtæki hafi skilað frá sér síðustu verkefnum. Fyrirtækin eiga einnig að skila inn lista yfir undirverktaka og að tryggja að þau standist sambærilegar kröfur.

Stjórn Fagfélagsins gerir þá kröfu á aðila sem standa fyrir útboðum að þessar reglur séu í heiðri hafðar áfram. Gengdarlaus niðurboð viðgangast um þessar mundir og eru opinberir aðilar framarlega í flokki að taka óraunhæfum tilboðum. Þar með ýta þeir undir að verk fari í svarta atvinnustarfsemi því vinnuliðurinn og launatengdu gjöldin eru oftast sá liður sem fyrirtæki reyna að pína niður og komast hjá að greiða til að eiga möguleika á að komast í gegnum lág tilboð.

Fer þá í gang hrunadans. Í þeim hrunadansi leitar verktakinn sér að undirverktökum sem síðan finnur undirverktaka og síðan koll af kolli. Dæmi eru til um 5-6 „kynslóðir undirverktaka" í einu og sama verkinu. Og þá er mjölið farið að súrna ef það er ekki orðið maðkað.  Leiðin fyrir undirboð, svarta atvinnu og vörusvik  með því að sníða hjá iðnaðarmönnum í iðnaðarstörf orðin greið.

Stjórn Fagfélagsins krefst svara við því hvort það sé meðvituð stefna hjá opinberum  aðilum að;

  • afnema allar reglur um gagnsæi í opinberum útboðum?
  • ekki sé skylt að standa skil á opinberum gjöldum?
  • gera vinnumarkaðinn að undir- undirverktakamarkaði?
  • heimilt sé að nota ófaglært fólk í störf iðnaðarmanna?
  • ekki sé skylt að virða samninga um lágmarkskjör?

Nýjast