Læknaráð Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri hefur sent Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra áskorun, þar sem lýst er yfir miklum áhyggjum af stöðu heilsugæslulækna við stöðina og aðgengi íbúa að öruggri þjónustu heimilislækna. Í kjölfar niðurskurðar hefur aðsókn íbúa aukist sem lýsir sér best í vaxandi bið eftir tímum hjá heimilislæknum. Hefur biðtími að meðaltali rúmlega tvöfaldast frá 2008. Heilsugæslan hefur ekki farið varhluta af niðurskurði og fer starfsmönnum stöðvarinnar enn fækkandi af þeim sökum. Mikill samdráttur í starfsemi FSA og fækkun hjúkrunarrýma á svæðinu hefur haft þau áhrif að sífellt fleiri erindum er beint til heimilislækna. Þá er aðgengi að sérgreinalæknum ólíkt minna hér á Akureyri en á höfðuborgarsvæðinu, og eykur það enn frekar þörfina fyrir heimilislækna. Heilsugæslulæknar á Akureyri eru að sinna fleiri verkefnum og fleiri íbúum en staðan í dag leyfir. Álagið á lækna er orðið þannig að reyndustu heimilislæknarnir eru komnir að þolmörkum. Samlög lækna eru löngu full og læknum ekki gert kleift að sinna störfum sínum sem skyldi. Slíkt getur grafið undan sambandi lækna og sjúklinga, og þjónustunni sem veitt er. Yngri læknar telja að þetta séu vinnuaðstæður sem ekki verði unað við og hætta er á að við missum framtíðarfólk frá okkur vegna óviðunandi vinnuálags. Læknaráð HAK skorar á heilbrigðisráðherra að gera heilsugæslunni fjárhagslega kleift að ráða fleiri lækna sem fyrst til að geta sinnt íbúum á viðunandi hátt og gera vinnuumhverfi heimilislækna ásættanlegt. Læknaráð hefur fullan skilning á erfiðri aðstöðu en bendir á að forgangsröðun fjármagns þurfi að endurspegla viljann í orði til eflingar grunnþjónustu, segir ennfremur í áskorun læknaráðs HAK.