Af og til kemur lífið mér á óvart og í skaut mér falla viðfangsefni sem ég er ekki vanur. Sum þessi viðfangsefna hafa verið mér lítt sýnileg og ég stundum hef ég hreinlega ekki gert mér grein fyrir því að þau væru til. Þetta gerist helst þegar ég þarf að taka að mér að ganga í verk sem konan mín vinnur alla jafna. En nýjar aðstæður færa manni líka ný tækifæri.
Öfugsnúin tilvera og ný tækifæri
Það gerðist á dögunum og konan mín tók upp á því að ákveða að fara af landi brott einhverra erinda og vera í burtu í einhverjar vikur. Þetta var óvænt og óvenjuleg staða. Fram að þessu hafði það verið mitt hlutverk að fá svona skyndihugdettur og hlaupa fyrirvaralítið út í óvissuna og skilja hana eftir með heimili og börn. Það fyrirkomulag er þrautreynt og hefur gefist vel. En nú hafði öllu verið snúið á hvolf. Ég tók þessu fjörlega, enda hafði mér ekki sýnst þetta vera mikið mál þegar ég hafði farið að heiman. Ég man að hún sagði mér af hverju hún þyrfti að fara en ég tók ekki eftir því hvað það var.
Eftir að konan mín fór reyndi ég af öllum mætti að halda heimilinu í viðunandi standi og gera mitt besta til að unglingarnir horféllu ekki meðan hún væri í burtu. Gekk það bærilega framan af. Ég reyndi líka af fremsta megni að vanda mig við að taka ákvarðanir um heimilið, en konan mín hefur fram til þessa gætt þess vandlega að það kæmi aldrei í minn hlut að taka ákvarðanir.
Einn laugardag náði ég með elju og þrautseigju að raga syni mínum á unglingsaldri á fætur laust upp úr hádegi. Ég þvingaði hann til að hjálpa mér að laga til í bílskúrnum, en konan hafði síðustu misserin verið að tala um að þess væri þörf. Við feðgar urðum strax sammála um að einfaldast væri að draga saman í hrúgu alla þá muni sem hún sjálf hafði borið fram í bílskúrinn og keyra hrúguna síðan upp á gámasvæði. Hófumst við handa og gekk það vel að við ákváðum eftir skamma stund að taka okkur hlé.
Karlmannleg ákvörðun
Meðan við sátum og ræddum karlmannlega hluti yfir gosdrykkjum og kexi, sá ég að á Facebook birtist auglýsing um að til sölu væri tæplega hálfrar aldar gamalt hermótorhjól af gerðinni Can Am Bombardier 250 cc. Augljóst var af auglýsingunni að leggja þyrfti talsverða vinnu í hjólið til að gera það ökufært. Ég brá skjótt við og greip símann minn. Staðsetningarbúnaður er í símum okkar hjónaleysanna og við stillum hann þannig að við getum séð staðsetningu hvors annars. Eftir að hafa sannfært sjálfan mig um að konan væri alveg örugglega í 9800 kílómetra fjarlægð, hafði ég samband við drenginn sem auglýsti hjólið. Ég bað hann að líta á hjólið sem selt, keyra það tafarlaust til mín og taka við greiðslunni. Það gekk eftir og með hjálp hans náði ég að bera það og draga í plássið sem hafði losnað í bílskúrnum við yfirstandandi tiltekt. Við gengum svo frá viðskiptunum og báðir undu glaðir við sitt. Hreykinn sendi ég svo konu minni mynd af hjólinu. Nær samstundis hringdi hún í mig.
Linnulausu spurningaflóði rigndi yfir mig. Eftir að hafa svarað hreinskilnislega "ég veit það ekki" öllum spurningum hennar um hvað ég ætla að gera við þetta, hvort það fari í gang, hvort það væri hægt að fá varahluti í þetta og hvort þetta væri sjaldgæft hjól, urðum við ósammála um það hvort ég hún hafi gefið samþykki sitt fyrir þessum viðskiptum.
Réttaróvissan.
Og því spyr ég ykkur, kæru lesendur: Er það ekki rétt hjá mér að ef kona kona tekur það ekki skýrlega fram við mann sinn áður en hún fer úr landi, að hann megi ekki kaupa mótorhjól meðan hún er í burtu, teljist hún hafa samþykkt mótorhjólakaup sem hann kann að gera í fjarveru hennar? Mér sýnist það fremur augljóst.
En hvað sem því líður hef ég varið umtalsverðum tíma í bílskúrnum eftir að konan mín kom heim. Ástand heimilisins við heimkonu hennar spilar þar líka inn í svo ég segi eins og er. Nýlega byrjaði ég að taka hjólið í sundur. Ég átti reyndar bara einn bjór svo ég varð að hætta eftir tæpa klukkustund. Ég held verkinu áfram eftir að ég á næst leið úr bænum því eins og allir vita hefur Vínbúðin verið flutt norður fyrir Glerá. Það er reyndar hægt að fá heimsent, en mér skilst að áfengi sem maður kaupir ekki af ríkisvaldinu sé afar heilsuspillandi.