„Sæll vinur minn, ertu ekki að vinna í miðbænum?“ sagði gamall félagi sem ég hafði ekki séð lengi. „Jú,“ svaraði ég stoltur. „Er eitthvað líf í miðbænum?“ „Já, heldur betur“ og bætti svo við „en það mætti vera meira.“
Fallegi miðbærinn okkar á skilið fleiri heimsóknir. Hann nefnilega getur tekið endalaust við fólki sem sér fegurðina í fallegum byggingum, góðum veitingastöðum, kaffihúsum, börum og verslunum og ekki má gleyma nýja bakaríinu, sem kom í stað Kristjánsbakarís. Við sem vinnum í miðbænum erum dugleg að heimsækja bakaríið, það er eitthvað við það að skottast í bakaríið þegar löngun í eitthvað sætt tekur völdin.
Ég viðurkenni að þessi löngun kemur oft upp hjá mér og til þess að friða samvisku mína á ég það til að draga vinnufélaga mína inn í þennan hugarheim sem er fullur af sætu brauði. Ég hef oft staðið upp hróðugur frá skrifborðinu mínu til að fara í bakaríið og kaupa eitthvað sætt handa mér og vinnufélögunum. Ein ferð í bakaríið stendur þó upp úr. Fyrir nokkrum misserum þramma ég af stað í bakaríið.
„Nú skal koma vinnufélögum á óvart, nú verður góður slatti af sætu brauði,“ hugsa ég með mér. Þegar ég kem inn í bakaríið tekur ung afgreiðslukona á móti mér með fallegu brosi. Ég leit í kringum mig til vera viss að hún væri að brosa til mín. Það kom ekkert annað til greina þar sem ég var einn í bakaríinu. Ég brosi á móti, býð henni góðan daginn og ber upp erindið. Ég ætla að fá eina vínarbrauðslengju, fjóra snúða, og sex kleinuhringi, takk.
Unga afgreiðslukonan horfir á mig og spyr, ætlar þú að borða hér?