Það er ekki sjálfgefið að maður nái að eldast og allra síst vera nokkuð heilsuhraustur á meðan. Sjálf var ég viss um að ég næði ekki meira en 60 árum í þessu jarðlífi. Það fór á annan veg. En það að búast við dauða sínum, sem náttúrulega allir ættu að gera, virkaði þannig á mig að ég var ekkert að spá í framtíð eftir sextugt. En svo varð ég sextug og lifði það af og enn bætast árin við.
Áður fyrr var ég spurð að því hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór? Nú er ég spurð hvort ég sé enn að vinna, hvort það sé ekki erfitt og hvort ég ætli ekki að fara að minnka við mig vinnu? Og hvenær ég ætli að hætta?
Ég satt að segja veit það ekki! Til hvers ætti ég að gera það? Ég hef gaman af mínum störfum, ég nýt þess að vera í félagsskap við mitt samstarfsfólk, stórt sem smátt. Ég reyni mitt besta til að takast á við verkefni hvers vinnudags og oftast finnst mér ég hafa staðið mig vel en stundum er ég ekki eins ánægð með mig. Ég býst við að það sé eins með marga, en þá daga sem mér finnst ég hefði átt að gera eitthvað öðruvísi, þá laumast að sú hugsun að ég sé kannski bara orðin of gömul til að sinna þessari vinnu svo vel sé.
Það sem undrar mig er hvað þessar hugsanir sem fara á stjá eru fljótar að vinda upp á sig: er ég orðin of gömul? Ef svo er, hvernig veit ég það? Mun einhver segja það við mig beint? Ef/ þegar ég hætti, hvað geri ég þá? Hvað í ósköpunum á ég að gera af mér ef ég verð 94 ára eins og afi? Verð ég að fara að finna mér önnur áhugamál en vinnuna?
En eitt veit ég og er alveg örugg á því, ég ætla að lifa þar til ég dey og þegar það gerist þá er a.m.k. legsteinninn minn klár, hann Rúnar minn hefur séð til þess.
Dilla
