25. desember, 2025 - 15:20
Ásta F. Flosadóttir
Mynd .essi af hjónunum með börnin er tekin í Höfða sumarið 1933. Þá voru þau orðin 12, en urðu 14 þegar upp var staðið Mynd úr safni
,,Árið er 1930. Sigrún og Kristinn hafa nú búið í Hringsdal í fjögur ár og börnin orðin 10 þegar hér er komið sögu.
Jólaundirbúningurinn gengur vel og bráðum gengur nýtt ár, 1931, í garð. Sigrún er búin að pússa alla lampa svo bjart er í bænum. Í baðstofunni eru fjögur rúm, tvö þeirra er hægt að draga út og stækka þannig yfir nóttina. Áskell nágranni á Svínárnesi hafði svo smíðað flet sem hægt var að stækka og á Skákinni gátu fjögur börn sofið. Sigrún sefur yfirleitt með tvö yngstu hjá sér og Kristinn með eitt í sínu rúmi.
Ásta F. Flosadóttir skrifar
Eldsvoði
Jóladagur er að kveldi kominn og Kristinn efnir það loforð að spila við krakkana um kvöldið, yngstu börnin eru komin í ró og Sigrún lætur líða úr sér í rúminu við hliðina á Maríu litlu meðan norðanstórhríðin bylur á þekjunni. Skyndilega sprettur Kristinn á fætur, hann finnur reykjarlykt. Sigrún og krakkarnir fara líka á stjá og fleiri finna lyktina. Þegar Sigrún opnar inn í fjósið mætir henni þykkur reykur, það er kviknað í fjósþekjunni. Nú verður uppi fótur og fit, Kristinn vill senda Jóhannes yfir að Hjalla til að sækja hjálp en Sigrún þvertekur fyrir það, meira vit sé í að nota drenginn við að slökkva eldinn en senda hann einan út í þetta snarbrjálaða veður. Kýrnar eru hóstandi, leystar í flýti og hleypt inn í bæinn, allir koppar og kirnur týnd til og börnin látin handlanga ílátin. Sem betur fer er ekki langt að sækja vatnið þar sem Kristinn endurbyggði fyrir nokkru rangalann út í bæjarlækinn. Hann stendur svo á nærfötunum við að rífa niður raftana í fjósinu og sulla vatni yfir þá, þeir eru svo dregnir inn í eldhús og haldið áfram að bleyta vel í þeim þar. Kristinn eys vatni upp í þekjuna og á endanum ná þau að slökkva. Þá er að hleypa reyknum út og binda kýrnar aftur á básana, þvo mesta sótið og skítinn af fólkinu og koma börnunum í háttinn. Sigrún sofnar um leið og höfuðið snertir koddann en Kristni kemur ekki dúr á auga, hann svíður í brunasár á höndunum og hugsar til þess með hryllingi ef þau hefðu nú verið öll sofnuð, það er ekki víst að nokkurt þeirra hefði vaknað aftur. Og ef ekki hefði tekist að slökkva eldinn og þau hefðu þurft að flýja bæinn með öll börnin, hvernig hefði þeim gengið að komast að Hjalla? Nei það eru ekki fallegar hugsanir sem halda vöku fyrir bóndanum í Hringsdal þessa nótt.
„Fréttirðu eitthvað? Er nokkuð að ganga kíghósti?“
Á nýársdag skreppur Sigrún yfir að Hjalla og tefur nokkra stund. Hún hefur áhyggjur af Indriða sem liggur heima með kvef og ljótan hósta. Á Hjalla er verið að tala um kíghósta sem sé að stinga sér niður í sveitinni. Sigrún fyllist illum grun, en vonandi mun þessi vonda veiki sneiða framhjá barnahópnum í Hringsdal. Þegar hún kemur heim að bænum tekur Kristinn á móti henni í bæjardyrunum. Hann er alvarlegur á svip.
„Fréttirðu eitthvað? Er nokkuð að ganga kíghósti?“
Hún kinkar kolli, þau leiðast inn göngin og inn í baðstofuna. Það liggur við að þeim fallist hendur, börnin eru öll hóstandi, öll tíu. Kíghóstinn er komin í hús.
Sigrún og Kristinn hafa bæði fengið kíghósta svo þau veikjast ekki, en það er erfiður tími framundan og það vita þau bæði. Sigrún setur upp vatn á eldavélina og þar sýður svo stanslaust svo mikil gufa er alltaf í baðstofunni. Á miðju gólfinu er fata og í hana er bæði migið og ælt í verstu hóstaköstunum. María er á fyrsta árinu og hún er fárveik, Sigrún þarf reglulega að hlaupa með hana út og hún blánar í verstu köstunum. Í heilan mánuð fara hjónin ekki úr fötunum og sofa til skiptis stutta dúra í senn. Óttinn heldur þeim gangandi, ekkert barnið geta þau hugsað sér að missa.
Í þessum kíghóstafaraldri dóu börn í sveitinni en börnin í Hringsdal hresstust öll þótt sum hafi mátt glíma við afleiðingar kíghóstans lengi.
Í byrjun nóvember fæðist Anna Kristbjörg."