Lögreglumaður grunaður um ölvun

Embætti ríkislögreglustjóra hefur nú til skoðunar meinta ölvun lögreglumanns á Akureyri, sem ásamt starfsbræðrum sínum var kallaður út til að sinna vettvangi banaslyssins í Hörgárdal aðfaranótt sunnudags, þegar ítalskur karlmaður búsettur hér á landi lést í bílveltu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Tildrög málsins munu hafa verið þau að lögreglumaðurinn kom á vettvang og hitti þar fyrir starfsbræður sína. Þótti hann lykta af áfengi er hann mætti á staðinn og var því talin ástæða til að taka af honum öndunarsýni og senda hann í blóðprufu. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra verður málið skoðað nánar en það hefur verið sent ríkissaksóknara þar sem ákveðið verður hvort ákæra verði gefin út fyrir brot í starfi. Þegar mál af þessum toga eru skoðuð eru höfð til hliðsjónar ákvæði lögreglulaga og starfsmannalaga auk almennra hegningarlaga, segir í frétt Morgunblaðsins.

Nýjast