Lóð í eigu Landsbankans öllum til ama

Grunnurinn er í eigu Landsbankans/mynd karl eskil
Grunnurinn er í eigu Landsbankans/mynd karl eskil

„Landsbankinn hefur átt lóðina Þrumutún 6 í nokkur ár. Fyrrverandi eigandi var búinn að steypa grunn undir einbýlishús á lóðinni, en bankinn eignaðist hana fljótlega eftir hrunið árið 2008. Steypustyrktarjárn stóðu upp úr grunninum, með tilheyrandi hættu, enda sóttu börnin í hverfinu nokkuð í grunninn. Bankinn lét setja jarðveg yfir svæðið, sem kallar á óþægindi vegna foks,“ segir Ásgeir Már Magnússon eigandi einbýlishússins við Þrumutún 4 á Akureyri. Hann segist ekki geta gengið endanlega frá lóðinni sinni vegna þessa, ekki sé heldur hægt að steypa gangstéttir og göngustíga við lóð bankans.

Bærinn breytti reglum

Samkvæmt reglum Akureyrarbæjar var miðað við að húsbyggjandi hefði almennt 18 mánuði til að gera hús fokhelt og frágengið að utan, jafnað og grætt lóð og gengið frá lóðarmörkum.  Hætt var við þessi tímamörk í kjölfar bankahrunsins. Ásgeir segir að nú séu breyttir tímar og hann skorar á bæinn að breyta reglunum aftur í sama horf.

Varla skortur á peningum

 „Ég bendi á að Landsbankinn hagnaðist um nærri 29 milljarða króna í fyrra og eigið fé bankans var um 250 milljarðar króna.  Varla er það skortur á fjárhagslegum styrk, sem kemur í veg fyrir framkvæmdir. Þessi staða er öllum til ama.“

karleskil@vikudagur.is

Nýjast